138. löggjafarþing — 147. fundur,  24. júní 2010.

tekjuskattur.

659. mál
[16:08]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Ég styð þetta framfaramál. Það bætir rétt skattgreiðendanna. Mikilar skuldir einstaklinga sem geta ekki staðið í skilum með afborganir vegna stökkbreyttra lána í kjölfar hrunsins munu verða niðurfelldar í nánustu framtíð.

Ég set fyrirvara við það sem snýr að einstaklingunum í frumvarpinu. Þar er búið að gefa hverjum og einum skattgreiðanda kvóta upp á 15 milljónir fyrir einstaklinga og 30 fyrir hjón. Þetta gagnast flestum Íslendingum en það er hópur sem verður út undan. Þessi hópur gæti talið í kringum 1.500 manns. Skuldarar eru yfirleitt ungir að árum og með börn á heimilinu. Þetta snertir kannski fjórum sinnum 1.500, þá 6.000 manns á landinu. Ég á bágt með að skilja út af hverju við þurfum að einangra þessa aðila.

Hvernig aðilar gætu þetta verið? Jú, hugsum okkur bóndann í Vestur-Húnavatnssýslu sem keypti sér stofnfjárbréf sem urðu verðlaus og lánin fyrir þeim hækkuðu upp úr öllu valdi. Hugsum okkur að hann skuldi um 50 milljónir. Ef hann er giftur eða samskattaður með maka sínum standa 20 milljónir út af eftir að kvótinn er búinn. Þessar 20 milljónir eru skattlagðar með tekjuskattsprósentunni, hann lendir þá væntanlega í hátekjuþrepi, 47%. Það er talið að hann sé með svo miklar tekjur út af þessu. Þá situr þessi einstaklingur eftir með tæplega 10 millj. kr. skattskuld. Ríkið er svo almennilegt við þessa fjölskyldu að þessi einstaklingur fær að borga þessar 10 milljónir til baka á þremur árum. Það sjá allir sem vilja að sauðfjárbóndinn ræður ekkert við þetta, það fara allar tekjurnar í að greiða skuldina. Þetta leiðir til þess að annaðhvort þarf hann að bregða búi til þess að standa undir greiðslunum eða fara í gjaldþrot ef hann á engar eignir. Hann getur ekki farið í greiðsluaðlögun vegna þess að hann notaði peningana til þess að spekúlera. Hann keypti stofnfjárbréf.

Tökum annað dæmi af bankastarfsmanninum sem fékk kauprétt upp á 100 milljónir. Hann fékk lánað fyrir þeim kauprétti. Lánið margfaldaðist og fór upp í 200 milljónir. Ef hann er í sambúð eða samskattaður með maka þá eiga þau rétt á 30 millj. kr. frádrætti. Það sjá það allir sem vilja að það er vonlaus staða sem blasir við þessum einstaklingi út af þessari skattlagningu. Ekki getur hann farið í greiðsluaðlögun, frekar en bóndinn sem ég talaði um áðan, því að þetta er spekúlasjón hjá honum.

Svona er ástatt fyrir 1.000–1.500 fjölskyldum sem telja kannski fjögur til sex þúsund manns. Mér er ómögulegt að skilja út af hverju við þurfum að taka þetta fólk út fyrir. Þetta fólk á rétt eins og allir aðrir Íslendingar til þess að komast aftur á lappirnar og verða virkt í hinu efnahagslega lífi. Það á ekki að þurfa að gera þetta fólk gjaldþrota.

Í 1. umr. talaði ég um að við værum að skattleggja ógæfu annarra. Ógæfa fólksins sem ég nefndi er orðin að skattstofni fyrir ríkið. Ekki eingöngu er þetta ósanngjarnt gagnvart þessum hópi, eins og hv. þm. Pétur Blöndal bendir á, heldur er líka ólíklegt að þetta fáist nokkurn tíma greitt, fólkið verður gjaldþrota. Hvað höfum við þá fengið út úr málinu? Jú, að það er búið að reka þetta fólk í gjaldþrot sem er engum til góða og síst af öllu þeim fjölskyldum sem lenda í þessu.

Þetta er aðalathugasemdin sem ég hef við frumvarpið. Á heildina litið er það til bóta. Það er ljóst að það bætir stöðu skuldara sem þurfa að fá niðurfellingu og það er gott.

Hvað varðar fyrirtækjahlutann er hann líka til bóta. Maður hefði auðveldlega getað séð fyrir sér að sama regla og er í dönskum rétti, þar sem allt sem ekki leiðir til hreinnar eignaaukningar er undanþegið tekjuskatti, hefði verið notuð. En eins og ég segi þá er frumvarpið til bóta og ég styð það. Jafnframt minni ég á að við horfum fram hjá 1.000–1.500 fjölskyldum í landinu. Í ræðu minni við 1. umr. minnti ég á hvar mannúðin væri. Ég minni enn og aftur á að þessu er hægt að kippa í liðinn áður en við samþykkjum frumvarpið endanlega. Ég hvet þingmenn til þess að muna eftir mannúðinni.