138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:08]
Horfa

Ólína Þorvarðardóttir (Sf):

Frú forseti. Ríkisstjórn Íslands stendur nú á tímamótum. Breytingar hafa verið gerðar á verkaskiptingu stjórnarinnar og ráðherraskipan. Þeim breytingum er ætlað að styrkja stjórnina og efla hana í viðureign við þau verkefni sem fram undan eru, til samræmis við endurbætur sem fyrirhugaðar eru á stjórnkerfi landsins.

Margt hefur áunnist á þeim 18 mánuðum sem liðnir eru frá því ríkisstjórn Samfylkingar og Vinstri grænna tók við stjórnartaumum. Þegar við lítum yfir farinn veg í gegnum móðu og mistur óagaðrar stjórnmálaumræðu undanfarinna missira, fram hjá moldviðrum dægurþrefs og hagsmunabaráttu, má segja að við blasi ótrúleg sýn. Við sjáum landið rísa við sjónbaug. Við sjáum hvarvetna jákvæð teikn á lofti um breytingar til batnaðar: Lækkun verðbólgu, minnkandi atvinnuleysi, hagvöxt, aukinn kaupmátt og það sem kannski er mest um vert, kannanir á líðan fólks sýna að bjartsýni almennings og almenn ánægja eru að aukast. Og þá er mikið fengið eftir allt sem á undan er gengið, því að hvað getur verið dýrmætari uppskera fyrir stjórnvöld en vaxandi bjartsýni og aukin ánægja fólks sem lifir í þessu landi?

Ríkisstjórn Íslands stendur nú á tímamótum. Enn bíða brýn verkefni því að svo sannarlega erum við ekki komin á beinu brautina enn þó að mikilvægir áfangar séu að baki.

Verkefnin fram undan lúta öll að grundvelli jafnaðarstefnu t.d. velferðarmálum og í byggðamálum. Þau varða jöfnun lífsgæða, ekki aðeins milli fólks heldur einnig landshluta, t.d. með bættum samgöngum, sameiningu sveitarfélaga, skilyrðum atvinnulífsins til sjávar og sveita og ekki síst í orku- og auðlindamálum. Í auðlindum Íslands er fólginn lykillinn að framtíðarvelferð okkar og því skiptir miklu hvernig haldið verður á þeim mikilvæga málaflokki. Það er aldrei mikilvægara en á erfiðum tímum að þjóðin haldi fast um auðlindir sínar og hugi vel að nýtingu þeirra, sjálfbærni og ekki síður því hvernig arðsemi þeirra kemur þjóðarbúinu best.

Ríkisstjórnin sem nú situr hefur heitið því í stjórnarsáttmála að mótuð verði heildstæð orkustefna sem miði að því að endurnýjanlegir orkugjafar leysi innflutta orku af hólmi. Við orkuframleiðslu með vatnsafli og jarðvarma verði gætt varúðar og verndarsjónarmiða og að orkustefna stjórnvalda muni styðja við fjölbreytt atvinnulíf. Jafnframt er það siðferðileg skylda okkar við komandi kynslóðir að ekki sé gengið á höfuðstól auðlindanna og að samfélagsleg hagkvæmni sé höfð að leiðarljósi við ráðstöfun þeirra og nýtingu. Rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða er mikilvægur liður í þeirri stefnumótun og brýnt að hún fái lögformlega stöðu í stjórnkerfinu sem allra fyrst.

Frú forseti. Í dag geisa hatrömm átök í íslensku samfélagi um auðlindir þjóðarinnar. Þau átök lúta ekki hvað síst að nýtingu fiskveiðiauðlindarinnar og í þeim átökum takast á harðir hagsmunir annars vegar og þjóðhagsleg sjónarmið hins vegar. Meðal þess sem ríkisstjórnin hefur einsett sér og heitið þjóðinni er að leiðrétta það hróplega óréttlæti sem núverandi kvótakerfi hefur leitt yfir byggðir landsins. Sú leiðrétting þarf að verða með sanngjörnum breytingum á fiskveiðistjórnarkerfinu, breytingum sem miða að því að arðurinn af fiskveiðiauðlindinni renni til síns rétta eiganda, þ.e. í þjóðarbúið, að fiskveiðar og útgerð verði til þess að efla og viðhalda atvinnu í byggðum landsins, að jafnræðis- og mannréttinda sé gætt við úthlutun aflaheimilda þannig að nýliðun geti átt sér stað í greininni og menn njóti atvinnufrelsis í reynd.

Átök undanfarinna ára um fiskveiðistjórnarkerfið hafa leitt okkur fyrir sjónir svo ekki verður um villst að það má ekki dragast lengur að treysta í sessi og stjórnarskrárbinda varanlegt eignarhald og fullt forræði þjóðarinnar yfir auðlindum hafsins. Íslenskur sjávarútvegur er undirstöðuatvinnugrein í landi okkar og eðlilegt að hann gegni sínu hlutverki við endurreisn efnahagslífsins og þeim mun mikilvægara er að sátt náist í samfélaginu um eignarhald og nýtingu á (Forseti hringir.) auðlindum sjávar. Það er ekki nóg að sú sátt sé við útgerðarmenn, hún þarf að vera við þjóðina alla.

Að lokum, frú forseti, vona ég að dirfska (Forseti hringir.) og styrkur verði inntakið í störfum þjóðar og þings á þeim vetri sem fram undan er.