138. löggjafarþing — 149. fundur,  2. sept. 2010.

störf og stefna ríkisstjórnarinnar, munnleg skýrsla forsætisráðherra.

[15:25]
Horfa

Guðmundur Steingrímsson (F):

Frú forseti. Mig langar að byrja á því að tala um bréf sem vinur minn fékk frá bankanum sínum á dögunum. Hann hafði tekið gengistryggt erlent lán og hafði auðvitað sínar ástæður fyrir því og óx höfuðstóll þess láns eins og við þekkjum gríðarlega í kjölfar ófaranna í íslensku efnahagslífi. Ekkert var gert í því. Margir báðu um aðgerðir til að koma til móts við vandræði þess hóps sem hafði tekið gengistryggð erlend lán. Lítið var gert. Svo kom dómur Hæstaréttar og þessum vini mínum óx von í brjósti, hélt að ástandið yrði skaplegra eftir það. Þá komu tilmæli frá Seðlabankanum og Fjármálaeftirlitinu um hvernig skyldi bregðast við dómi Hæstaréttar. Margir telja að væntanlegur dómur Hæstaréttar um vaxtakjör verði í anda þeirra tilmæla. Efni bréfsins var útreikningur á láninu. Í stuttu máli var það eins og blaut tuska. Vissulega lækkaði höfuðstóllinn en afborganirnar hækkuðu enn frekar og viðkomandi skuldar bankanum. Sem sagt: Hvað afborganir varðar fer þessi aðili úr öskunni í eldinn. Hann átti að borga 190 þús. kr. þegar hann tók lánið upphaflega. Gerði vissulega ráð fyrir miklum sveiflum. Núna eftir dóm Hæstaréttar og tilmælin er þetta komið upp í að ég held 390 þús. kr. Ég veit ekki alveg hvernig sá hinn sami túlkar það þegar honum er sagt núna að kreppan sé búin. Ég held að hann telji svo ekki vera. Ef þetta er niðurstaðan er það enn ein birtingarmynd þess að við í íslensku samfélagi höfum frá því hrunið skall á ekki horfst í augu við að kreppan sem við erum að glíma við er skuldakreppa. Vandinn sem við glímum við er skuldavandi, fyrst og fremst. Þetta hefur mér ekki fundist hæstv. ríkisstjórn taka alvarlega. Ótal aðilar hafa reynt að hugsa út fyrir rammann, komið með tillögur að einhvers konar lausnum til að losa íslensk heimili út úr nákvæmlega þessum vanda, annaðhvort afborgun sem er út úr korti eða ofvöxnum höfuðstól sem leiðir til skuldafangelsis. Reynt hefur verið að opna augu hæstv. ríkisstjórnar sem kallar sig velferðarstjórn fyrir því að nákvæmlega þetta sé vandamálið á Íslandi og að við þurfum að glíma við það. Hún hefur ekki opnað augun.

Við í stjórnarandstöðunni höfum tekið þátt í því að búa til einhvers konar spítala fyrir skuldugt fólk, embætti umboðsmanns skuldara og svoleiðis, til að hjálpa fólki sem er í verulegum vanda. Það er ekki til þess fallið að takast á við höfuðvanda íslensks samfélags sem er skuldavandi. Það þarf engan kjarneðlisfræðing til að sjá af hverju svo er. Við höfðum á löngu tímabili búið til lánamarkað á Íslandi sem var einstaklega slæmur í hruni sem þessu. Lánamarkaðurinn, verðtryggður, leiddi til þess að byrðarnar sem urðu til í hruninu enduðu á herðum almennings. Þær eru þar enn þá.

Kreppan var ekki hrun atvinnuvega, til dæmis. Vissulega dróst ofþaninn byggingariðnaður verulega saman. Það var viðbúið. En fiskstofnar hrundu ekki. Framleiðslugreinarnar hrundu ekki. Það var viðbúið að krónan mundi styrkja útflutningsgreinarnar og ferðamannaþjónustuna. Þetta sáum við fyrir. Þess vegna kemur það ekkert sérstaklega á óvart að það sé framleiðsluaukning í íslensku samfélagi, sérstaklega eftir dýfuna í kjölfar hrunsins. Það kemur ekkert á óvart heldur að verðbólgan hafi farið niður og gengið sé eitthvað að styrkjast. Við höfum reyndar gjaldeyrishöft.

Það sem vantar í íslenskt samfélag er að skuldavandinn sé tekinn alvarlega. Það vantar viðurkenningu á því að vandi íslensks þjóðfélags sé skuldakreppa, ofvaxinn höfuðstóll og skuldafangelsi íslenskra heimila. Það er ekki fyrr en ríkisstjórnin áttar sig á þessu, talar um þennan vanda og tekst á við hann af alvöru, að búsáhöldin fara hugsanlega að þagna á Austurvelli.