138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

staða heimilanna.

[10:42]
Horfa

forsætisráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Eitt af því sem óvissa er um varðar stöðu skuldugra heimila, þ.e. hvernig gengistryggðu lánunum sem nú eru fyrir dómstólunum reiðir af. Við munum væntanlega fá niðurstöðu í það mál fljótlega. Væntanlega verður kveðinn upp dómur innan tíðar í því efni sem skiptir verulegu máli fyrir heimilin í landinu og fyrir stöðu þjóðarbúsins líka.

Varðandi Alþjóðagjaldeyrissjóðinn, virðulegi forseti, hafa stjórnarliðar og stjórnarandstaða staðið saman í hvernig taka eigi á því og hafa gert um nokkurra mánaða skeið. Mjög nauðsynlegt er að fá lyktir í það mál og vonandi verður það. Samningaviðræður eru í gangi núna og ríkisstjórnin fór síðast í morgun yfir stöðu málsins. Það er full ástæða til að ætla að við fáum líka niðurstöðu í það mál fljótlega. Það skiptir verulegu máli. Það er alveg ljóst að gjaldeyrisforði þjóðarinnar hefur styrkst verulega á umliðnum mánuðum. Það getur farið svo að við endurskoðum hvort við þurfum á öllum þeim lánum að halda sem fyrirhuguð voru í samningunum við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn. Við þurfum að fara yfir það. Það sem skiptir kannski mestu er að það stefnir í að á árinu 2011 getum við lokið samskiptum okkar við Alþjóðagjaldeyrissjóðinn sem hafa verið með ágætum og ég tel að hafi hjálpað okkur verulega úr þeim vanda sem við höfum verið í og hefur flest gengið eftir.