138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

gengistryggð lán.

[10:57]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Ég held að hv. þingmaður fari hér með stóryrði sem engin innstæða er fyrir. Það var orðið ljóst og umræður voru um að óvíst væri hvort allir lánasamningar af þessu tagi væru löglegir eða skuldbindandi. Það er auðvitað ævintýraleg niðurstaða að svona umfangsmikil lánastarfsemi skuli hafa viðgengist í þessu landi í upp undir áratug og að enginn, hvorki þeir sem eftirlit áttu að hafa með henni né aðrir, hafi gert athugasemdir við það, en það er staðan sem við sitjum uppi með.

Hvar liggur ábyrgðin í þessu máli? Er það ekki í þeirri ótrúlegu niðurstöðu að þrátt fyrir skýr ákvæði laga frá Alþingi upp úr aldamótum skyldi engu að síður svo umfangsmikil lánastarfsemi eiga sér stað á þessum grunni og að það eftirlit sem með henni átti að vera skyldi bregðast? Það held ég nú. Þegar síðan óvissan er komin upp fara málin í þann eina farveg sem þau geta farið, þ.e. til dómstólanna sem verða að skera úr um réttarágreininginn á þessu sviði. Það er að gerast núna og við fáum niðurstöðu hvað varðar meðferð lánanna í framhaldi af því, (Forseti hringir.) þegar dæmt hefur verið um skuldbindingu þeirra.