138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

málefni lífeyrissjóðanna og Landsbankans.

[11:01]
Horfa

fjármálaráðherra (Steingrímur J. Sigfússon) (Vg):

Frú forseti. Mér er ekki kunnugt um það sem hv. þingmaður fullyrðir, að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn meti það svo að lífeyrissjóðir landsmanna séu eign ríkisins. Ég veit ekki hvaðan hv. þingmaður hefur þær upplýsingar. Ef hún getur staðfest það með skjölum vil ég gjarnan sjá það.

Ég tel hins vegar að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn geri sér ekki grein fyrir, frekar en margir aðrir sem meta stöðu íslenska þjóðarbúsins, hversu gríðarlega verðmætt þjóðarbúið er fyrir okkur. Það skiptir miklu máli að við erum í allt annarri stöðu en margar aðrar þjóðir með framtíðarlífeyrisskuldbindingar. Yfir íslenska þjóðarbúinu hangir ekki sú snjóhengja sem því miður er víða að finna í öðrum löndum, að manna bíður þar gríðarlegur vandi með breyttri aldurssamsetningu og í gegnumstreymiskerfum þar sem menn hafa ekki myndað sjóði. Menn ættu t.d. að líta á framreikninga á því sem bíður Bandaríkjanna í þeim efnum og ef skuldir Bandaríkjanna eru teknar og það sem þeir eiga við að glíma á komandi áratugum varðandi lífeyrisskuldbindingar kemur önnur mynd út.

Landsbankinn er ekki alfarið í eigu ríkisins eins og hv. þingmaður hélt fram, heldur að 81%. Varðandi það sem átti sér stað þegar Landsbankinn og Framtakssjóður áttu viðskipti sín á milli verða þeir sem að þeim stóðu að sjálfsögðu að svara fyrir þau. Bankasýslan fer með eignarhaldið, og fjármálaráðherra er beinlínis bannað með lögum að blanda sér í það mál. Þannig gekk Alþingi frá því og ég var fullkomlega sáttur við það en menn geta ekki bæði sleppt og haldið. Bankasýslan fer með eigendahlutverkið og hefur það hlutverk að fylgja fram eigendastefnu ríkisins. Með lögum var sett á fót sérstök eftirlitsnefnd sem mun skila reglubundið til ríkisstjórnar og Alþingis skýrslum um það að bankar og fjármálafyrirtæki vinni samkvæmt þeim verklagsreglum sem mótaðar hafa verið í úrvinnslu slíkra mála. Geri menn það ekki er það að sjálfsögðu mjög ámælisvert og ber að taka á slíku. En það er búið að setja upp kerfi til að fylgjast með því og við skulum (Forseti hringir.) vona að það kerfi virki.