138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

málefni lífeyrissjóðanna og Landsbankans.

[11:03]
Horfa

Vigdís Hauksdóttir (F):

Virðulegi forseti. Það var eins og við var að búast. Hér var ekki svarað neinni af þeim spurningum sem ég beindi til hæstv. fjármálaráðherra. Ég bið ráðherrann jafnframt að lesa þau skjöl sem liggja í fjármálaráðuneytinu þar sem margoft hefur komið fram að lífeyrissjóðseign landsmanna er færð eignamegin í ríkisreikninginn. Það ætti sjálfur hæstv. fjármálaráðherra best að vita.

Varðandi lögbrot eða ekki lögbrot, eftirlitskerfi okkar koma til með að fara yfir það, vonandi eftir að umboðsmaður Alþingis tekur þetta upp sem fordæmisgefandi mál. Þarna er augljóst lögbrot á ferðinni. Ég vonast eftir spurningum í framhaldinu og vona að hæstv. fjármálaráðherra taki vel í þær. Veit hann hvað þau fyrirtæki sem um ræðir sem liggja nú inni í Vestia skulduðu lífeyrissjóðunum við þessa yfirfærslu? (Forseti hringir.) Þarna er um að ræða klára eignatilfærslu. Fóru einhverjir peningar eða greiðslur þarna á milli eða er um uppgjör að ræða milli lífeyrissjóðanna og Vestia?