138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:35]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það er fróðlegt að heyra að hv. þm. Kristján Þór Júlíusson hefur eytt einhverjum tíma í Leníngrad. Kannski hefur hann orðið fyrir fullmiklum áhrifum af hugmyndafræði þess manns sem sú borg er kennd við en hann var eins og kunnugt er höfundur hins miðstýrða stjórnkerfis sem lengi var þar við lýði og er enn. Augljóslega er hv. þm. Kristján Þór Júlíusson aðdáandi þess líka. Það kemur mér svo sem ekki mikið á óvart. Mér finnst töluvert vera líkt með þeim stjórnmálahreyfingum tveimur, annars vegar þeirri sem hv. þingmaður tilheyrir og hins vegar þeirri sem félagi Lenín tilheyrði á sínum tíma.

Ég er þeirrar skoðunar að þegar kemur að vísindum og rannsóknum þá eigi menn ekki að miðstýra of mikið. Þar hallast ég frekar að því sem annar mikilhæfur höfðingi á svipuðum slóðum og hv. þingmaður var staddur á, þ.e. Maó formaður, fylgdi en hann sagði: Látum 100 blóm blómstra, þó ekki úr byssuhlaupum, eins og hann mun einhvern tíma hafa bætt við líka.

Í Háskóla Íslands hefur t.d. komið upp mikill áhugi á norðurslóðarannsóknum. Væntanlega tengist það vaxandi athygli á svæðinu og ég hef tekið eftir því af því að ég hef lagt mig fram um að fylgjast með rannsóknum og lesa fræðigreinar sem Íslendingar skrifa og tengjast þessu. Ég tek eftir því að við Háskóla Íslands hafa mjög atgervisríkir fræðimenn breytt rannsóknaráherslum sínum og tekið að einbeita sér að þessu. Stór ríki og samtök úti í heimi hafa leitað eftir áliti þessara fræðimanna. Mér finnst það gott. Ég lít á þessa þróun sem ákveðna samkeppni við t.d. það sem verið er að gera á Akureyri og ég styð hvort tveggja. Ég held einmitt að þær mismunandi áherslur sem menn sjá þar hjálpi því sem við þurfum á að halda sem er þróun stefnumótunar og hún byggist á þessari rannsóknarvinnu. (Forseti hringir.) Rannsóknaráherslurnar hafa eins og ég sagði ekki verið nægilega sterkar síðustu áratugi en með Akureyri hefur orðið breyting á því og fleiri fylgja í kjölfarið.

Svo vildi ég gjarnan ræða, frú forseti, Evrópusambandið á eftir, í lengri ræðu, þar sem ég tók eftir því að hv. þingmaður forðaðist það eins og köttur sem rekst á heitan graut.