138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:38]
Horfa

Kristján Þór Júlíusson (S) (andsvar):

Frú forseti. Það er oft þannig þegar hæstv. utanríkisráðherra kemur í pontu að maður á í vandræðum með að fylgja honum og svo var í þetta skiptið þótt ég svona undir lokin næði þræðinum. Ég held að við verðum að eyða öðrum tíma í Evrópusambandsumræðuna heldur en þeim tíma sem hér gefst í stuttum andsvörum og tæpast undir málefnum heimskauta og allra síst undir málefnum Háskólans á Akureyri.

Það er alveg rétt, ég naut þess mjög að vera í Leníngrad og hef komið þangað oftar en einu sinni og oftar en tvisvar. En ég hef líka komið til Múrmansk og vaknað þar upp í frekar svart/hvítri martröð sem segir okkur þá um leið að ýmsar hliðar eru á öllum kenningakerfum, sérstaklega eftir því hvernig menn kunna að fara með þau og ég fullyrði að þarna var ekki farið rétt með. Ég var ekki að mælast til þess að frumkvæði og vilji manna til að vinna að þessum málum yrði drepinn niður, allra síst í tengslum við góð og gagnleg fræðistörf eins og stunduð eru í Háskóla Íslands á sumum sviðum. Ég var einfaldlega að vara við því að sá mjói vísir sem spratt upp norður í Háskólanum á Akureyri yrði drepinn af þeim stóra og sterka sem sölsar þetta undir sig eins og t.d. var gert — svo ég nefni dæmi um mál sem hefur farið mjög illa hjá okkur Íslendingum af því að við efndum til samkeppni á því sviði. Það var í vinnu í tengslum við það að byggja upp nám fyrir stúdenta á sviði orkumála. Þar voru RES – Orkuskólinn á Akureyri, Keilir í Keflavík og þriðja batteríið var svo búið til með tilstuðlan Orkuveitu Reykjavíkur. Þetta endaði með því að allir þessir þrír póstar voru í algerri rúst og ég vil leggja varnaðarorð við því að við förum sömu leið gagnvart norðurslóðamálefnunum, að egna þessum stofnunum í samkeppni. Ég vil miklu frekar að stofnanirnar vinni saman og byggi þetta upp og ég ber fullt traust til fræðasamfélagsins til að gera slíkt, en ég vil ekki að þær fari að keppa um takmarkaða (Forseti hringir.) fjármuni og ríkiseigur og séu egndar í einhverja samkeppni.