138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:44]
Horfa

Sigmundur Ernir Rúnarsson (Sf):

Frú forseti. Það hefur verið afskaplega ánægjulegt og jafnvel undarlegt að hlusta á umræðuna hér um norðurskautsmálefni þar sem þær ágætu persónur Lenín og Maó hafa numið staðar í framsögu manna. Ég kem upp til að leggja málefninu eindregið lið og er reyndar meðflutningsmaður þess, svo sem fram hefur komið í framsögu formanns utanríkismálanefndar. Ég vil taka strax skýrt fram að ég er afskaplega ánægður með þá ríku samstöðu sem kemur fram í nefndaráliti utanríkismálanefndar. Það er augljóst að nefndin vill leggja málinu mikið lið og það er vel.

Áður en ég kem að norðurskautsumræðunni sem er að mínu viti afskaplega mikilvæg þá vil ég fyrst leggja áherslu á mikilvægi Háskólans á Akureyri. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að stofnun Háskólans á Akureyri fyrir liðlega aldarfjórðungi sé merkilegasta byggðaaðgerð í sögu þjóðarinnar. Það má vel vera að ég taki stórt upp í mig með þeim orðum en það er sannfæring mín að stofnun háskólans, sem var baráttumál margra merkra þingmanna á síðustu öld, hafi skilað Eyjafjarðarsvæðinu, Norðurlandi og reyndar allri íslensku þjóðinni ef út í það er farið, glæsilegum árangri í menntamálum. Þar var komið til móts við mikla þörf fyrir aukna menntun á svæði þar sem menntun hefur hvað mest átt undir högg að sækja. Við eigum að efla menntun á þeim svæðum þar sem menntun er hvað minnst og brottfall er hvað mest úr skólum. En þetta var um Háskólann á Akureyri.

Við þekkjum vel til Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar. Hún er að mörgu leyti mjög merkileg og svar við rannsóknarþörf nýrra tíma. Ég er mjög stoltur af því að henni hafi verið komið á fót, einmitt í tengslum við Háskólann á Akureyri og sem næst þeim verkefnum sem við blasa. Við Íslendingar eigum að koma stofnunum á fót á þeim stöðum þar sem verkefnin blasa við. Þar má nefna flutning Skógræktar ríkisins til Egilsstaða. Við eigum að hafa verkefni ríkisstofnana þar sem verkefnin eru til staðar. Það á einnig við um verkefni Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar.

Þessi verkefni eru vitaskuld mjög á dagskrá nú þegar loftslagsbreytingar eru áberandi og ég tel að þau verði í deiglunni á næstu árum og áratugum. Við þurfum ekki nema að horfa á fréttir gærdagsins til að sjá að það eru að verða gríðarlegar breytingar á loftslagi á Íslandi. Í fréttum Stöðvar 2 í gær sáum við að vötnin á hálendi Íslands eru að þorna upp. Nýverið var ég ásamt þingmannanefnd Vestnorræna ráðsins á Grænlandi þar sem hlýnun loftslags á norðurhveli jarðar var ofarlega á baugi. Þetta mun leiða til þess að margar mun stærri þjóðir en við Íslendingar munu horfa til þessara svæða á komandi árum. Þess vegna finnst mér það mjög táknrænt, skemmtilegt og aðdáunarvert að við Íslendingar flytjum þetta mál nú til að laða að okkur allt það vit og öll þau fræði sem eru merkust í þessum geira nú um stundir. Það gerum við með því að halda ráðstefnur af þessu tagi. Þó að það sé að mörgu leyti undarlegt að velja verkefninu einn og sama staðinn í þingsályktunartillögu þá er Akureyri eftir sem áður vel til þess fallin að fjalla um þessi mál, staðsetningarinnar vegna, Stofnunar Vilhjálms Stefánssonar vegna og Háskólans á Akureyri vegna en ekki síst vegna þeirrar glæsilegu aðstöðu sem nú blasir við í ráðstefnuhaldi í höfuðstað hins bjarta norðurs. Nýverið var vígð nýbygging Háskólans á Akureyri þar sem er að finna glæsilegar vistarverur undir þróttmikið ráðstefnuhald. Þá vil ég einnig geta þess að á sama degi var menningarhúsið Hof vígt þar sem er að finna 500 manna sal fyrir miklar ráðstefnur. Nú loksins við dagsbrún nýrrar aldar er að rætast gamall draumur Eyfirðinga, norðanmanna og Akureyringa um að geta tekið við alþjóðlegum ráðstefnum með glæsilegum hætti. Allt leggst þetta á eitt við að styðja þingsályktunartillöguna um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna. Það er jafnframt mjög ánægjulegt að lesa nefndarálitið sem formaður utanríkismálanefndar gat um áðan og las upp úr.

Að lokum þetta. Ég vil taka undir orð hæstv. utanríkisráðherra er varðar rétt frumbyggja á norðurskautssvæðinu til að viðhalda atvinnumenningu þeirra og mjög var til umræðu á téðri ráðstefnu vestnorræna ráðsins á Grænlandi sem ég heimsótti fyrir tveimur vikum eða svo. Það er og á að vera skýlaus réttur frumbyggja á þessu svæði að stunda þær fiskveiðar og veiðar almennt sem þeir hafa iðkað um aldir. Við Íslendingar eigum að leggjast á sveif með þeim og reyndar okkur sjálfum í þessum efnum og verja þennan rétt. Á því sviði er að mörgu leyti við ofurefli að etja svo sem eins og heilu Bandaríkin og Evrópusambandið sem hafa lagt stein í götu þessara þjóða, sérstaklega Færeyinga og Grænlendinga, þegar kemur að útflutningi á skinnum og margvíslegu handverki sem unnið er úr selum, hvölum og öðrum dýrum sem fyrirfinnast á þessum slóðum. Hér eiga Íslendingar að leggjast á sveif með nágrönnum sínum og því er þessi vettvangur afskaplega mikilvægur, þ.e. að Íslendingar gefi ekkert eftir í þessum málaflokki heldur sæki fram.