138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

aðild að spillingarsamningi Sameinuðu þjóðanna.

652. mál
[12:07]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. formanni utanríkismálanefndar sérstaklega fyrir þau vösku vinnubrögð sem nefndin hefur sýnt undir hans skeleggu forustu. Það er mikilvægt að aðild okkar að þessum samningi komist til framkvæmda sem fyrst. Ég átti ekki von á að það yrði niðurstaðan á þessu stutta þingi í september. Þess vegna færi ég honum sérstakar þakkir fyrir það. Sömuleiðis upplýsi ég það hér að siðareglurnar sem á að leiða af samningnum fyrir opinbera starfsmenn og ráðherra eru í drögum eins og hv. þingmaður sagði. Þó hafa sum ráðuneyti nú þegar sett sér slíkar reglur. Til dæmis setti utanríkisráðuneytið sér siðareglur á síðasta ári sem taka mið af kröfum sem gerðar eru í þessum samningi. Satt að segja var ég mjög undrandi á því að slíkar siðareglur væru ekki til í því góða ráðuneyti þegar ég kom þangað og leitaði eftir þeim.

Einnig er gott að heyra að hv. allsherjarnefnd vinni að því að breyta hegningarlögum að því marki. Það er ein tiltekin grein sem þarf að breyta til þess að Ísland geti gerst aðili að samningnum gegn spillingu. Mér þætti vænt um ef hv. formaður gæti upplýst mig um það hvernig þeirri vinnu miði. Ef hann hefur ekki vitneskju um það hvet ég hann sem formann utanríkismálanefndar að beita sér fyrir því að allsherjarnefnd klári málið til þess að við getum lokið málinu á þessu þingi.

Að svo mæltu, frú forseti, vil ég geta þess að mér finnst breytingin sem lögð er til á heiti tillögunnar vera til bóta.