138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[12:30]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég er sammála hv. flutningsmanni þessa nefndarálits um það að hér er verið að stíga skref í rétta átt. Þetta er hænuskref og þegar hægt er að stökkva yfir lækinn í heilu lagi er ég meira gefin fyrir það.

Í 8. bindi skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis segir, með leyfi forseta:

„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til þess að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálasamtaka og einstakra stjórnmálamanna.“

Svo segir síðar, með leyfi forseta:

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmálamanna. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Nú getum við kannski verið sammála um það að samfélag okkar hefur færst í rétta átt frá því fyrir hrun en ég vil spyrja hv. þingmann: Hefði ekki verið rétt að bíða eftir niðurstöðu þingmannanefndar og áliti þingmannanefndar á þessu og þeim leiðbeiningum sem þar eiga að koma fram áður en við afgreiðum þetta mikilvæga frumvarp?