138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[12:32]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Spurningin sem hv. þingmaður beinir til mín hér er hvort rétt hefði verið að bíða niðurstöðu þingmannanefndar. Sú tillaga kom fram í meðförum allsherjarnefndar. Ég hafnaði henni. Ég hef hafnað sams konar sjónarmiðum þegar upp hafa komið hugmyndir um það að bíða með ákveðnar breytingar vegna þess að þar séu á ferðinni spurningar sem eigi að afgreiðast í meðförum stjórnlagaþings. Nú er það svo, ef ég man rétt, að hin ágæta þingmannanefnd átti að skila af sér í lok vorþings, einhvern tímann um miðjan maí eða júnímánuð. Það gekk ekki eftir. Ég veit ekki hvenær hv. þingmannanefnd skilar af sér í þinginu núna. Mér er ógjarnt um að bíða upp á von og óvon eftir því að þaðan komi einhver niðurstaða sem ég veit ekki í sjálfu sér hver verður í þessum efnum. Það sama á við þegar kemur að stjórnlagaþingi. Hér eru á ferðinni spurningar sem okkur sem þjóðkjörnum þingmönnum ber skylda til að svara. Það að afgreiða þetta mál í gegnum þingið sem nokkurs konar lágmarkssamnefnara sem foringjar stjórnmálaflokkanna voru tilbúnir til að skrifa upp á útilokar ekki að í framtíðinni muni þingmenn á þessari samkomu flytja frumvarp sem gengur enn lengra og tekur mið af þeim tillögum sem fram koma frá hv. þingmannanefnd þegar og ef þær koma fram.