138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[12:34]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég ætla ekki að svara til um hvaða lærdóm hv. þingmenn í allsherjarnefnd hafa dregið af skýrslu rannsóknarnefndar. Þeir verða að svara því sjálfir. Ég tel hana eitt þýðingarmesta rit sem út hefur komið í stjórnmálum á undanförnum áratugum á Íslandi. Ég held að það skipti mjög miklu máli í allri framtíðarumræðu um stjórnmál.

Eins og ég sagði áðan í framsöguræðu minni með nefndarálitinu er ég þeirrar skoðunar að það eigi ekki að vera nein nafnleyndargólf þegar kemur að fjárframlögum til stjórnmálamanna eða stjórnmálaflokka. Svo þarf að skoða hugmyndina um það að félagasamtök eða fyrirtæki eða einhvers konar lögaðilar sem ekki eru kjörgengir til Alþingis geti styrkt stjórnmálaflokka eða frambjóðendur. Það er spurning sem ég er ekki reiðubúinn til að svara í þessum ræðustól. Ég mundi vissulega ekki vilja búa svo um hnútana að það væru eingöngu fjársterkir aðilar sem gætu tekið þátt í kosningabaráttu. Að það væru eingöngu einhverjir sem ættu í sínum eigin vasa, einhverjir stjórnmálamenn sem gætu kostað dýra kosningabaráttu sem næðu árangri í stjórnmálum. Þá værum við ekki að búa til sanngjarnar leikreglur þegar kemur að lýðræðinu. Þetta er vandmeðfarið jafnvægi sem þarf að skoða. Við viljum að fólk af ólíkum bakgrunni og ólíkum stéttum með mismunandi fjármagn á bak við sig geti tekið þátt í lýðræðinu. Þannig virkar það best.