138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[12:42]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég held að ég og hv. þm. Þór Saari séum að mörgu leyti mjög sammála í þessum efnum, þó að við séum ekki alveg sammála um það með hvaða hætti eigi að afgreiða þessi mál í gegnum þingið. Ég er þeirrar skoðunar að þrátt fyrir samkomulag á milli stjórnmálaflokka sé þingmönnum, hvort sem þeir tilheyra stjórn eða stjórnarandstöðu, frjálst að flytja hvers konar mál sem þeim sýnist í þinginu. Ég er þeirrar skoðunar og hef lýst því innan allsherjarnefndar og geri það hér líka að þingmannamál eigi að fá brautargengi í gegnum þingið, hvort sem þau eru frá stjórn eða stjórnarandstöðu. Ég veit að hv. þingmanni er kunnugt um það sjónarmið mitt í störfum nefndarinnar. Þannig hef ég t.d. verið áhugamaður um það að allsherjarnefnd taki til mjög alvarlegrar skoðunar frumvarp hv. þingmanns um þjóðaratkvæðagreiðslu og flytji sjálf frumvarp sem kveður á um rétt ákveðins hlutfalls kjósenda til þess að fara fram á þjóðaratkvæðagreiðslu eða ákveðins hlutfalls þingmanna. Ég tel að í því mundi felast mikil lýðræðisbót. Þar er á ferðinni spurning eða álitaefni sem margir mundu segja að stjórnlagaþing ætti að svara.

En eins og ég sagði áðan er ekki auðséð hvernig slíkum málum reiðir af, hvorki í meðförum þings né stjórnlagaþings. Ég lít svo á að það sé skylda okkar burt séð frá öllu öðru að halda áfram að hnika þessum málum í lýðræðisátt. Það sama á við um það mál sem hér er flutt. Þetta er skref í rétta átt, e.t.v. er það hænuskref, eins og hv. þm. Margrét Tryggvadóttir sagði áðan, en það er í það minnsta lengra farið en áður var.