138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

stefna í uppbyggingu í orkumálum.

[13:37]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kemur hér upp og þylur sömu atriðin aftur og aftur og aftur. Hann gerði það líka á síðasta þingi til að reyna að sannfæra land og þjóð um að þessi ríkisstjórn sé ekki að gera neitt í atvinnumálum. Hv. þingmaður hefur ákveðið að veðja á þann hest, það er augljóst. Þess vegna fer hann með endalausar staðleysur aftur og aftur.

Hann fullyrti áðan að ekkert væri verið að gera í því að koma af stað stórframkvæmdum. Ég veit ekki betur en að nýlega sé búið að skrifa undir samning um að nú sé að fara af stað hönnun á nýjum Landspítala – háskólasjúkrahúsi. Það er stórframkvæmd.

Virðulegi forseti. Ég veit ekki betur en að núna með haustinu fari af stað framkvæmdir vegna Búðarháls sem eru til komnar vegna þess að búið er að gera samninga um stækkun í Straumsvík. (Gripið fram í.) Þingmaðurinn fullyrti hér áðan að ekkert væri að gerast í þessu. Hvað er maðurinn að tala um, virðulegi forseti? Þetta eru staðreyndir, þetta er að fara af stað.

Sömuleiðis réðist þessi ríkisstjórn í skattaívilnanir vegna endurbóta á húsnæði sem hefur aldeilis komið hreyfingu á byggingariðnaðinn. Tónlistarhúsinu mun ljúka á tilsettum tíma og sömuleiðis höfum við í ríkisstjórninni tekið málefni Helguvíkur föstum tökum. Ríkisstjórnin er ekki beinn aðili að því máli eftir að fjárfestingarsamningi vegna þess verkefnis var lokið. Hv. þingmaður veit það jafn vel og ég að það er undirskrift þessa iðnaðarráðherra sem stendur á þeim fjárfestingarsamningi við Norðurál. Það er enn og aftur staðreynd. Ég held að hv. þingmaður ætti þar með að vita hver afstaða þessa ráðherra hér er til þess verkefnis. Ríkisstjórnin hefur staðið við allt sem að henni snýr varðandi málefni Helguvíkur og það er líka staðreynd. (Gripið fram í: Er það?) Það er engin veruleikafirring í því. (Gripið fram í: Með hjálp Sjálfstæðisflokksins.) Nýlega boðaði ég á minn fund alla hagsmunaaðila sem að því verkefni koma. Ástæðan var einföld, eins og tekið var eftir voru menn farnir að benda hver á annan og það var kominn ásökunarleikur í gang í fjölmiðlum. Það þótti mér miður og því kallaði ég alla aðila til. Á þeim fundi kom skýrt fram að það stendur ekkert upp á stjórnvöld varðandi næstu skref í verkefninu, bæði útgáfa virkjanaleyfis vegna stækkunar Reykjanesvirkjunar og skipulagsmála í Ölfusi vegna Hverhlíðarvirkjunar eru í eðlilegum farvegi.

Lykilatriðið núna er að orkufyrirtækin og framkvæmdaraðili nái samkomulagi um orkusölusamning en ágreiningi HS Orku og Norðuráls hefur verið vísað til gerðardóms í Svíþjóð. Aðilar ræðast þó enn við og það er vonandi að úr þessum ágreiningi leysist fljótlega. Þá þarf líka að liggja fyrir skýr vilji af hálfu eigenda og ég held að hv. þingmaður ætti að ræða við flokksfélaga sína í sveitarstjórnum á Reykjanesi. Í öllum sveitarfélögum þar hefur ekki verið vilji til að nota orkuauðlindirnar til þessa verkefnis. Þetta er líka staðreynd, virðulegi forseti, og það er enn óljóst hvort yfir höfuð verði gert ráð fyrir þessum verkefnum í skipulagi sveitarfélaganna.

Vonandi verða upplýsingarnar um mikilvægustu niðurstöðu þessa fundar hv. þingmanni til ánægju. Í undanfara þess fundar átti ég mjög ánægjulegt samstarf við aðila vinnumarkaðarins og aðila stöðugleikasáttmálans í því að koma þeim fundi á. Það er ekki hægt að standa hér aftur og aftur og fara með sömu möntruna um að við séum ekki í neinni samvinnu við aðila vinnumarkaðarins. Það er bara einfaldlega rangt. Annars hefði þessi fundur auðvitað ekki komið til. Mikilvægasta niðurstaða þessa fundar var að taka verkefnið úr átakafarvegi þar sem aðilar benda hver á annan og að þess í stað vinni aðilar saman og hver fyrir sig geri það sem hægt er í sínum ranni til að koma þessari mikilvægu fjárfestingu af stað. Um þetta var algjör samstaða. Þess vegna þykir mér mjög miður þegar þingmenn ætla að festast í því fari að nota verkefnið áfram sem fóður í pólitísku keiluspili á Alþingi í stað þess að leggjast á árarnar með okkur sem vinnum raunverulega að því að eyða óvissu um þetta verkefni.

Hvað varðar verkefni á Norðausturlandi eru þau í góðum farvegi. Landsvirkjun leggur á það alla áherslu að þeirri orku sem þar er að finna verði komið í vinnu sem allra fyrst. Rammalöggjöf um ívilnanir vegna fjárfestinga hér á landi, sem samþykkt var í vor, mun líka koma hreyfingu af stað þannig að það að tala um (Forseti hringir.) einhverja veruleikafirringu og að við stöndum ekki við okkar þegar kemur að stórframkvæmdum er einfaldlega ekki boðlegt hér í þessum sal. Eina orkufyrirtækið (Forseti hringir.) sem er að fara að ráðast hér í framkvæmdir eftir hrun (Forseti hringir.) er ríkisfyrirtækið Landsvirkjun. Önnur fyrirtæki hafa ekki getað það, (Forseti hringir.) ekki einu sinni fyrirtæki sem stýrt er í sveitarstjórnum af samflokksmönnum (Forseti hringir.) hv. þingmanns sem spurði mig spurninga áðan.