138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

stefna í uppbyggingu í orkumálum.

[13:50]
Horfa

Skúli Helgason (Sf):

Virðulegi forseti. Við stöndum á krossgötum í auðlindamálum þjóðarinnar. Á þessum þingvetri mun þó væntanlega ráðast hvert við stefnum varðandi eignarhald og nýtingu náttúruauðlinda, hvort sem um er að ræða fiskinn í sjónum, vatnsauðlindina eða orkuna í iðrum jarðar. Það stendur fyrir dyrum að afgreiða rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrukosta. Það er grundvallarstefna Samfylkingarinnar að lögfesta eigi sameign þjóðarinnar á þessum auðlindum með því að binda ákvæði þess efnis í stjórnarskrá. Sú vinna hefur nú komist í nýjan farveg með samþykkt um sérstakt stjórnlagaþing sem þjóðin mun kjósa til í haust.

Það er sömuleiðis grundvallarmál að þjóðin fái eðlilegan og sanngjarnan hlut í hagnaðinum af nýtingu auðlindanna og tillögur þess efnis eru nú í mótun á vegum forsætisráðuneytisins sem mun skila inn í þingið frumvarpi um gjaldtöku fyrir vatns- og jarðhitaréttindi í eigu ríkisins.

Umræðan um eignarhald orkuframleiðslufyrirtækjanna verður sömuleiðis í brennidepli í vetur og þar tel ég að lykilspurningarnar sem svara þurfi séu þessar: Hvaða fyrirkomulag tryggir best að verulegur hluti hagnaðarins af orkunýtingunni verði eftir hjá eigendum auðlindarinnar, þ.e. þjóðinni, og hvaða fyrirkomulag tryggir best hámarksarðsemi við nýtingu þessara náttúruauðlinda? Í því efni þurfum við bæði að líta til íslenskra aðstæðna en ekki síður að læra af reynslu annarra þjóða.

Virðulegi forseti. Umræðan um orkumál á Íslandi hefur allt of lengi einkennst af átökum, yfirgangi og brigslyrðum. Nærtækt dæmi er umræðan um orkuuppbygginguna á Suðurnesjum sem undanfarin þrjú ár hefur fyrst og síðast snúist um eitt tiltekið verkefni, álver í Helguvík. Ég tel að atburðir síðustu vikna hafi loks fært okkur heim sanninn um það að ástæður þeirra tafa sem nú hafa orðið á því verkefni liggja fyrst og fremst í því að ekki hafa tekist samningar um orku til þessa verkefnis milli framkvæmdaraðila annars vegar og orkufyrirtækja og sveitarfélaga á svæðinu hins vegar. Ég finn til með því fólki á Suðurnesjum sem hefur beðið eftir því missirum saman að þetta verkefni yrði að veruleika og það er skylda stjórnvalda og hagsmunaaðila á Suðurnesjum að slíðra nú sverðin, hefja sig upp úr skotgröfunum og tryggja að niðurstaða (Forseti hringir.) fáist í það innan örfárra vikna hvort af þessu verkefni verður eða ekki.