138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

stefna í uppbyggingu í orkumálum.

[14:01]
Horfa

Jón Gunnarsson (S):

Virðulegi forseti. Hér kemur hæstv. iðnaðarráðherra og kveinkar sér yfir því að við skulum aftur og aftur gagnrýna atvinnustefnu (Iðnrh.: Það er rangt.) ríkisstjórnarinnar. Hér er allt í góðu lagi, það er bara allt í fínasta lagi, hún hljómar eins og forustumenn ríkisstjórnarinnar í gær. Veruleikafirringin heldur áfram, hún nær alla leið í þessari ríkisstjórn. Hæstv. iðnaðarráðherra er orðinn samdauna ríkisstjórninni að þessu leyti.

Það er þess vegna sem algjört vantraust ríkir. Ég var hér fyrst og fremst áðan að vitna í viðbrögð aðila vinnumarkaðarins, Samtaka atvinnulífsins og ASÍ, sem gagnrýndu ríkisstjórnina harðlega fyrir bara nokkrum dögum fyrir aðgerðaleysi og stefnuleysi í þessum málum. Hæstv. iðnaðarráðherra virðist ekki heyra þá gagnrýni.

Margt fróðlegt hefur verið sagt hér eins og það sem kom fram um að það ætti að nýta orkuna til góðra hluta — hver er að tala um annað? — og að við sjálfstæðismenn töluðum eingöngu fyrir stóriðju. Orðið stóriðja kom bara ekki fyrir í ræðu minni hér áðan, það er ekki til þar. Menn verða að fara að athuga málflutning sinn í þeim efnum, þegar verið er að tala um nýtingu orkunnar er ekkert endilega verið að tala um stóriðju. Það er verið að tala um fjölbreytilegan iðnað, fjölbreytt atvinnutækifæri sem nýta þessa orku til verðmætasköpunar og aukins hagvaxtar í þessu landi.

Fulltrúi Vinstri grænna hér ætlar að nýta orkuna öðruvísi en að virkja hana. Það væri gaman ef vinstri grænir legðu þá á borðið hvernig þeir ætla að gera það öðruvísi en að virkja hana. Svo er farið yfir Norðlingaölduveitu og hún gagnrýnd og sagt að hún muni leggja Þjórsárverin í rúst. Það er algjör afbökun á málflutningi. Þetta er hagkvæmasti virkjunarkostur okkar og hefur í för með sér minnstu náttúruröskun sem völ er á.

Iðnaðarráðherra svaraði mér í engu áðan um stefnu sína varðandi Norðlingaölduveitu, varðandi virkjanir í neðri hluta Þjórsár, viðræður hennar við lífeyrissjóði um fjármögnun á verkefnum, eins og segir í sáttmála ríkisstjórnarinnar, hvaða skoðun hún hefur á aðgerðum Samfylkingarinnar í Reykjavík (Forseti hringir.) vegna hækkunar á orkuverði og hvaða skoðun hún hefur á verkefni ECA (Forseti hringir.) á Keflavíkurflugvelli sem allir bíða nú svara við.