138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:10]
Horfa

Þór Saari (Hr) (frh.):

Virðulegur forseti. Ég bendi á að ég á 6 mínútur og 21 sekúndu eftir af ræðutíma mínum og þegar flutningsmenn frumvarpsins koma í hús á eftir verður umræðunni lokið. Það er skammarlegt að Alþingi skuli ganga svona fram og að stjórn þingsins skuli vera með þeim hætti sem raun ber vitni í þessu máli. Hér er lagt til áframhaldandi fyrirkomulag á fjármögnun stjórnmálaflokka þar sem einstaklingum verður kleift, nafnlaust, að gefa milljónir og tugmilljónir til stjórnmálaflokka með því að dreifa peningunum á einstakar einingar um allt land. Það er verið að gera það sama með framlög fyrirtækja til stjórnmálaflokka. Ég veit ekki hvað það eru mörg flokksfélög í Samfylkingunni, Sjálfstæðisflokknum eða Framsóknarflokknum úti um allt land en þau skipta tugum ef ekki hundruðum og þegar stórfyrirtækin dreifa tugmilljónaframlögum á öll þessi félög eru þau búin að kaupa sér aðgang að löggjafarvaldinu, búin að kaupa sér stjórnmálaflokka og kaupa sér þingmenn. Þetta hljómar kunnuglega. (Gripið fram í.)

Þetta kemur fram í frumvarpinu, hv. þm. Skúli Helgason, sem kallar hér fram í fyrir ræðumanni. Það kemur fram í frumvarpinu að fyrirtæki megi gefa einstökum flokkseigendum allt að 400.000 kr., 200.000 kr. nafnlaust frá einstaklingum. Þannig er bara þetta frumvarp, hans fólk hefur skrifað það og samþykkt og formaður hans leggur það fram.

Þetta gengur þvert gegn því sem segir í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Það er athyglisvert að sjá hvernig fjórflokkurinn snýr baki við niðurstöðu þeirrar skýrslu því að þetta er ekki skoðun Hreyfingarinnar, heldur segir í niðurstöðu þeirrar skýrslu:

„Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Hér er verið að setja lög sem gera beinlínis ráð fyrir framhaldi á þessu atriði. Það er lítils háttar farið eftir tilmælum GRECO í þessu máli, það er verið að lækka nafnleyndargólfið um 100.000 kr. en hækka hámarksupphæðina um 100.000 kr. á móti.

Hreyfingin hefur verið með allt aðra tillögu í þessum málum, þá tillögu að það verði önnur nálgun á fjármögnun stjórnmálaflokka en nú er. Við trúum því einfaldlega að lýðræðið beri stórfelldan skaða af ef það er háð framlögum fyrirtækja og einstaklinga undir nafnleynd. Það er ekki opið og gagnsætt lýðræði, það er ekki í anda þess sem GRECO hefur lagt til. Það er hægt að gera hlutina með allt öðrum hætti ásamt því að tryggja að stjórnmálaflokkar geti starfað eðlilega og að málfrelsi og tjáningarfrelsi verði líka tryggt. Það þarf ekki að gera það eins og gert var, það leiddi til hörmunga fyrir þjóðina, það leiddi til hrunsins og það leiðir til þess áfram að einungis 13% þjóðarinnar bera traust til Alþingis. Er það það sem alþingismenn vilja? Vilja þeir starfa hér undir því merki áfram að 87% þjóðarinnar vantreysti þeim í störfum sínum? Ég held að það sé einsdæmi að nokkur starfsgrein nokkurs staðar í heiminum búi við slíkt vantraust nema ef vera kynnu einræðisherrar í slæmum einræðisríkjum eða eitthvað svoleiðis.

Þetta er engu að síður það umhverfi sem Alþingi Íslendinga býr við og þetta er það umhverfi sem þetta frumvarp mun festa í sessi með lagasetningunni. Það segir meira en margt að hér er enginn flutningsmanna frumvarpsins. Það eru að vísu eitthvað fleiri þingmenn í salnum núna en voru hér fyrir hádegið og það er vonandi að þeir taki þá til máls um það og segi álit sitt á því. En það liggur ekkert á að afgreiða þetta mál. Þingmannanefndin, skipuð af Alþingi sjálfu, er að fjalla um málið og það er alveg sjálfsagt að Alþingi bíði eftir niðurstöðu þeirrar nefndar og síðan verði efnt til víðtækrar og ítarlegrar umræðu um það hvernig við viljum hafa umhverfi stjórnmálaflokka á Íslandi. Ég vil ekki hafa umhverfi leyndar og nafnleysis, umhverfi sem er háð framlögum frá stórfyrirtækjum. Það er hættulegt lýðræðinu að halda áfram með þeim hætti. Eins og ég sagði áðan er vel hægt að tryggja að stjórnmálaflokkar starfi og verði áfram öflugir á Íslandi án þess að umhverfið sé með þeim hætti sem þetta frumvarp gerir ráð fyrir.

Ég leyfi mér að endurtaka það sem ég sagði áðan um t.d. ljósvakamiðla, í flestöllum nágrannalöndum eru auglýsingar stjórnmálaflokka í ljósvakamiðlum einfaldlega bannaðar. Þar setja menn ekki fyrir sig einhver tjáningarfrelsisákvæði í stjórnarskrá heldur gera menn sér grein fyrir því að umgjörðin um lýðræðið skiptir mjög miklu máli og þarf að vera þannig að það sé tryggt að auðmenn geti ekki keypt sér lagasetningu.

Það verður áframhald á því á Íslandi að auðmenn geti keypt sér lagasetningu. Það er dapurleg niðurstaða eftir hrunið og eftir útkomu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis sem sjálfur forseti Alþingis tók á móti, hældi á hvert reipi og lagði til að þingmannanefnd yrði sett á laggirnar til þess að vinna úr. Það er blaut tuska framan í hana að fara með þetta mál hér í gegn. Ég átta mig ekki á því af hverju hæstv. forseti þingsins kemur ekki einfaldlega hér inn og tjáir sig um þetta mál. Þetta skiptir Alþingi Íslendinga bæði inn á við og út á við gríðarlega miklu máli. Ég hvet þingmenn til að velta þessu upp og leggja það til að málinu verði frestað og það fái meiri yfirvegun en verið hefur verið hingað til.