138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:15]
Horfa

Frsm. allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að beina nokkrum spurningum til hv. þm. Þórs Saaris vegna ræðu hans. Hann er mjög á móti þessu frumvarpi en það eru nokkrar breytingar hérna sem ég hefði ímyndað mér að væru honum þóknanlegar. Til dæmis er verið að lækka nafnleyndargólf á svokölluðum framlögum til stjórnmálaflokka og stjórnmálamanna úr 300.000 kr. í 200.000 kr. — er það ekki framfaramál?

Til að auka jafnræði milli stjórnmálasamtaka og til að greiða fyrir því að ný stjórnmálasamtök geti boðið fram í kosningum er jafnframt lagt til að stjórnmálasamtök geti, án tillits til niðurstöðu kosninga, sótt um fjárstyrk úr ríkissjóði til að standa straum af útlögum kostnaði vegna kosningabaráttunnar, allt að 3 millj. kr. — væri þetta ekki framfaraspor í þessum efnum ef stigið yrði?

Mig langar líka til að spyrja hv. þingmann út í skoðanir hans sem ég heyri að eru mjög skýrar þegar kemur að framlögum frá fyrirtækjum til stjórnmálaflokka og frambjóðenda: Hvað um framlög frá einstaklingum? Er í lagi að auðkýfingar styrki stjórnmálasamtök eða stjórnmálamenn persónulega en lítil saumastofa í Sandgerði mætti ekki styrkja frambjóðanda úr sínum heimabæ ef hún mundi vilja gera það? Þetta eru ekki einfaldar spurningar en sýna kannski hvað við er að eiga í þessu.

Hv. þingmaður talar mjög oft um að ekki sé mikið traust borið til Alþingis sem stofnunar. Það má vel vera að svo sé en hvort það að ganga skrefinu lengra í þessu frumvarpi eða ekki skiptir sköpum í þeim efnum skal ósagt látið.