138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[14:27]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hv. þingmaður svaraði því ekki hvernig ung og upprennandi kona á að koma sér á framfæri og verða þekkt þannig að kjósendur geti kosið hana. Hann reiknar heldur ekki með því að það sé raunverulegt lýðræði hérna. Tugir þúsunda kjósa til dæmis Sjálfstæðisflokkinn. Hvernig á ég að ná til þeirra? Sumir flokkar eru með svokallað prófkjör þar sem bara 200 manns koma saman í einum sal og kjósa frambjóðendur. Er það prófkjör? Það er langt innan við þann fjölda sem kýs viðkomandi flokk. Það er ekki lýðræði.

Ég tel að til þess að hafa almennilegt lýðræði þurfi menn að ná til einhverra þúsunda kjósenda. Það kostar. Ég veit ekki hvernig hann ætlar að ná til 10.000 kjósenda eins og ég hef þurft að ná til.

Ég veit ekki hvernig hv. þingmaður var kosinn í prófkjöri á sínum tíma, hver valdi hann til þings innan hans flokks, ég veit það ekki en ég geri ráð fyrir að það hafi verið tiltölulega þröngur hópur. Menn geta trútt um talað þegar þeir þurfa bara að hringja í 20 manns til að koma sér á framfæri og slást um sæti. Hvernig ætla menn að leysa það að þessi unga kona þarf að hafa samband við 10.000 manns og koma sér á framfæri?

Varðandi fyrrverandi varaformann Sjálfstæðisflokksins get ég nú ekki svarað því, það kemur þessu máli bara ekkert við. Við erum að tala um styrki til stjórnmálaflokka og við erum að tala um prófkjör. Það var ekki málið í því máli. Mér finnst dálítið afvegaleiðandi að tala um það. Ég skil ekki af hverju hv. þingmaður er með akkúrat það dæmi