138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[15:05]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir andsvarið. Hann segir að ekki megi auglýsa. Í ræðu minni áðan benti ég á vandkvæði á því. Er þá bara þekkt fólk sem kemst í framboð hjá Vinstri grænum, fólk sem er þekkt í fjölmiðlum eða af einhverju öðru, vegna þess að það er gott í einhverju ákveðnu fagi, íþróttamenn eða fjölmiðlamenn? Hvernig á ungt, menntað og lítið þekkt fólk, eins og ég gat um, sem hefur metnað til þess að starfa hjá Vinstri grænum, að koma sér á framfæri ef það má ekki auglýsa? Og hvernig ætlar hv. þingmaður að taka á því ef einhver stundar greinaskrif, eða er jafnvel styrktur til þess, fær borgað fyrir það eða borgar sjálfur fyrir að skrifaðar séu greinar í hans nafni, eins og stundum hefur gerst?

Þetta er ekki einfalt og ég sé ekki að Vinstri grænir leysi þetta með auglýsingabanni.