138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[15:07]
Horfa

Ólafur Þór Gunnarsson (Vg) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hv. þm. Pétri Blöndal að Vinstri græn hafa ekki leyst öll vandamál sem tengjast framboðum, forvölum eða vali á framboðslista. Hins vegar hafa Vinstri græn valið að fara ekki auglýsingaleiðina eins og sumir aðrir stjórnmálaflokkar hafa gert. Það leysir hluta vandans.

Leiðin sem við teljum flest að sé eðlileg fyrir framgang fólks innan okkar stjórnmálaflokks er í gegnum flokksstarfið. Þar hefur fólk næg tækifæri til að kynna sig á þeim fjölmörgu fundum sem Vinstri hreyfingin – grænt framboð heldur úti um allt land. Það hafa allir fjölmörg tækifæri til þess að skrifa í fjölmiðla. Sem betur fer getur fólk enn þá sent inn greinar til fjölmiðla sem gefa út prentefni á Íslandi, a.m.k. dagblöðin, og yfirleitt fengið þær birtar með einhverjum tímamörkum.

Ég ítreka að við höfum ekki leyst öll vandamál sem þessu tengjast frekar en aðrir stjórnmálaflokkar. Þetta er leiðin til að reyna að sneiða fram hjá fjármagninu þannig að menn geti ekki beinlínis keypt sig inn á framboðslista sem ég tel að sé afskaplega mikilvægt og held að hv. þm. Pétur Blöndal sé mér sammála.