138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[15:17]
Horfa

Þráinn Bertelsson (U):

Frú forseti. Það frumvarp sem hér liggur fyrir er merkilegt fyrir þeirra hluta sakir að það felur í sér tilraun stjórnmálaflokkanna, fjórflokksins, til að bregðast við breyttu almenningsáliti. Ekki er langt síðan að stjórnmálamenn hér á landi töldu það sér til tekna og mikluðust af því að þeim gengi ákaflega vel að fjármagna stjórnmálabaráttu sína með styrkjum frá hinum og þessum fyrirtækjum, atvinnugreinum, félögum og þar fram eftir götunum.

Nú er öldin önnur og breyttir tímar og almenningsálitið er gjörbreytt hvað þetta varðar. Það sem einu sinni var talið fólki til framdráttar er lagt því til lasts núna. (Gripið fram í.) Nú eru þeir tímar að almenningsálitið telur að koma þurfi einhverjum böndum á fjármál stjórnmálaflokka. Frumvarpið sem hér liggur frammi er skref í þá átt, skref sem formenn fjórflokksins geta orðið sammála um að stíga. Og eins og við mátti búast, þegar um það er að ræða að fá alla formenn fjórflokksins til að verða samstiga, þá er það skref ekkert sérstaklega risavaxið heillaskref.

Engum blöðum er um það að fletta að ekki er hægt að setja neinar endanlegar og fullkomnar reglur um fjármögnun stjórnmálaflokka, reglur sem girða fyrir alls konar undanbrögð og framhjátengingar. Mannlegt eðli er líka með þeim hætti að það eru ekki fyrst og fremst lögin sem gilda í landinu sem ráða því hvort þingmaður er reiðubúinn til að selja samvisku sína eða ekki. Það er mannleg náttúra sem ræður því og að hluta til lagasetning sem er þá áhættuþáttur í því reikningsdæmi.

Besta leiðin til að tryggja að fjármagn hafi ekki óeðlileg áhrif á stjórnmál er einfaldlega sú að fjármál stjórnmálaflokka séu opin og gegnsæ. Það er grundvallaratriði. Allt sem orkar tvímælis í þeim reikningum er dregið fram í dagsljósið, er tekið til umræðu, og ef það er ekki traustvekjandi er það til skaða fyrir þann flokk eða fyrir þann stjórnmálamann sem í hlut á. Ég tek undir það að við eigum langt í land með að klára umræðu um fjármál stjórnmálasamtaka, frambjóðenda og um upplýsingaskyldu þeirra. Umræðan hér í dag snýst fyrst og fremst um frumvarp sem er lítið skref til að svara kalli almenningsálitsins.

Sjö nefndarmenn í allsherjarnefnd skrifa upp á álit allsherjarnefndar en ég vek athygli á því að meiri hluti þeirra sem skrifa undir það, þ.e. fjórir af sjö, hafa á því fyrirvara, þar á meðal sá sem hér stendur. Fyrirvari minn byggist á þeim skilningi að hér sé um að ræða eitt lítið skref í stóru máli sem eigi eftir að fjalla ítarlega um, ekki síst í ljósi þeirrar reynslu sem stjórnmálaflokkarnir og þjóðin öll hefur gengið í gegnum á undanförnum árum og verið er að rannsaka. Hluti af þeirri rannsókn hefur komið fram í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis. Þingmannanefnd mun skila áliti innan tíðar og ég hygg, og það er von mín, að fleiri skref og vonandi stærri en þetta verði stigin varðandi lög um fjármál stjórnmálasamtaka og fjármögnun þeirra nú á næstunni. Það var skilningur allsherjarnefndar að málið væri í slíkum farvegi og þessi umræða þarf að vera lifandi á hverjum tíma svo fremi sem stjórnmálaflokkar eða stjórnmálasamtök vilja ganga í takt við almennt siðferði í landinu, svokallað almenningsálit.

Ég sé helst þann galla á þessu litla frumvarpi að hér skuli enn vera hangið á því að fyrirtæki, sem sagt lögaðilar, megi leggja fram fé til stjórnmálastarfs. Mér finnst að aðrir aðilar en þeir sem kosningarrétt hafa eigi ekki að hafa rétt til að leggja fé til stjórnmálastarfsemi. Í afburðagóðri ræðu, sem hv. þm. Birgir Ármannsson flutti hér áðan, var því hins vegar mjög vel lýst að það er svo einfalt mál ef vilji er fyrir hendi að fara kringum reglur um fjármögnun og fjárveitingar að engin lög nægja til að stöðva það. Það er vandamál sem er jafngamalt og saga mannkynsins nær að það er erfitt, næstum því óframkvæmanlegt, að koma lögum yfir mikið fjármagn. Mikið fjármagn lýtur sínum eigin lögmálum.

Að þessu sögðu lýsi ég stuðningi mínum við þetta litla hænufet í siðbótarátt í stjórnmálum með þeim fyrirvara að málið verði tekið aftur á dagskrá til enn ítarlegri lagasetningar og umræðu innan tíðar.