138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

fjármál stjórnmálasamtaka og frambjóðenda.

597. mál
[15:28]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna því að hæstv. forseti Alþingis er kominn í forsetastól. Hér er verið að ræða mjög mikilvægt mál. Hæstv. forseti talaði um í kjölfar útgáfu skýrslu rannsóknarnefndarinnar að hún væri mjög vel unnin en þetta mál gengur einmitt þvert gegn því sem segir í niðurstöðu rannsóknarnefndar Alþingis um fjármál stjórnmálaflokka.

Þingmannanefndin sem hæstv. forseti átti frumkvæðið að að yrði skipuð til að fjalla um skýrslu rannsóknarnefndarinnar hefur heldur ekki skilað áliti um þetta mál og einhverra hluta vegna virðist ekki mega bíða eftir því. Við í Hreyfingunni höfum gagnrýnt frumvarpið og höfum lagt fram hugmyndir að annars konar fjármögnun stjórnmálaflokka. Þær hafa ekki fengist ræddar almennilega, málið fékk ekki þá umræðu í allsherjarnefnd sem það þurfti. Eins og fram kemur í nefndarálitinu kom inn ein umsögn um frumvarpið og hún var frá Sambandi íslenskra sveitarfélaga. Því var hafnað að fá gesti á fund nefndarinnar þannig að málið í hinu stóra samhengi var aldrei afgreitt. Svo er talað hér um að málið verði tekið aftur á dagskrá.

Það er gott og vel og meiningarnar á bak við það eru örugglega góðar en þegar formenn fjórflokksins flytja mál er það ekki gert í þeim tilgangi að taka það aftur á dagskrá innan nokkurra vikna eða nokkurra mánaða. Það er farvegur þingsins sem ræður því. Málið verður því einfaldlega ekki tekið aftur á dagskrá fljótlega nema hæstv. forseti gefi einhvers konar vilyrði fyrir að beita sér í því. Þess vegna er mikilvægt að þetta sé rætt í þaula nú því að hér er haldið áfram með sama samspil fjármála, viðskiptalífs og stjórnmála og var fyrir hrun og var sú eitraða blanda sem leiddi m.a. til hrunsins. Hreyfingin tekur því einfaldlega ekki þegjandi og hljóðalaust að Alþingi og alþingismenn ætli sér að halda áfram á sömu braut. Við vorum ekki kjörin á þing til að styðja slíkt.

Ég mun ekki lengja mál mitt mjög en hv. þm. Pétur H. Blöndal lýsti eftir tillögum Hreyfingarinnar í málinu en er nú farinn af vettvangi. Engu að síður mun ég fara yfir þær. Ég leyfi mér að benda á að þrátt fyrir framlög til stjórnmálaflokka skulda þeir hundruð milljóna sumir hverjir, Framsóknarflokkurinn vel á annað hundrað milljónir. Er það æskileg staða fyrir lýðræðið? Finnst þingmönnum það boðlegt? Ég segi nei. Sagt er að ekki sé komin reynsla á nýju reglurnar frá 2006. Það getur vel verið en þetta frumvarp er bara áframhald á því sama.

Tillögur Hreyfingarinnar um endurskoðun laga um fjármál stjórnmálasamtaka og opinber framlög þeirra hljóða eins og hér segir, með leyfi forseta:

„Fjármögnun stjórnmálasamtaka er gríðarlega mikilvægt atriði fyrir réttlátan framgang lýðræðisins og brýnt að búa þannig um hnútana að allir sem koma að borðinu búi við sama rétt og sömu möguleika, óháð stærð og sögu hvers um sig. Fjármögnun stjórnmálasamtaka gerist með annaðhvort opinberum framlögum af skattfé borgaranna eða með einkaframlögum stuðningsmanna. Hér verður tæpt á nokkrum atriðum sem Hreyfingin telur mikilvæg varðandi báða þessa þætti. Mikilvægt er að hafa í huga að stjórnmálasamtök munu alltaf geta eytt meira fé, sama hvað þau fá mikið þannig að spurningin hvað er nóg er ekki viðeigandi, nema út frá sjónarhóli jafnræðis, lýðræðis og gagnsæis“ — þ.e. að gera fjárþörfina óþarfa eins og hægt er.

Um einkaframlög leggur Hreyfingin til að framlög lögaðila ættu að vera bönnuð með öllu „enda er hér um hreina og klára fjárhagslega hagsmunagæslu að ræða og lögaðili getur sem slíkur aldrei haft hugmyndafræðilegan áhuga á framgangi mála heldur eingöngu fjárhagslega hagsmuni, þ.e. gróðasjónarmið. Lögaðilar hafa ekki kosningarrétt og ekki er gert ráð fyrir aðkomu þeirra með neinum hætti í stjórnarskránni sem þátttakendum í stjórnmálum.

Framlög einstaklinga ætti að hámarka við 200.000 kr. og öll framlög hærri en 20.000 kr. á skilyrðislaust að skrá og opinbera innan eins dags frá móttöku þeirra“ — þannig að mönnum sé ljóst hverjir eru að gefa hvað, t.d. í aðdraganda kosninga.

Þá um opinber framlög en hér talar Hreyfingin um framlög til stjórnmálasamtaka sem bjóða fram til Alþingis:

„Engin marktæk rök er hægt að færa fyrir því að stór stjórnmálasamtök þurfi meiri framlög en minni samtök og sú regla sem hér gildir á rætur sínar í einföldu meirihlutavaldi stóru flokkana sem í þessu samhengi er ólýðræðislegt.

Mjög mikilvægt er að jafnræðis sé gætt á þessu sviði og ættu framlög að miðast við þann kostnað sem þarf vegna reksturs á skrifstofu og fundaraðstöðu af hóflegri stærð í hverju kjördæmi. Jafnframt dugi framlögin til greiðslu launa fyrir eitt stöðugildi framkvæmdastjóra (á landsvísu) og hálft stöðugildi í hverju kjördæmi fyrir sig. Öll stjórnmálasamtök sem ná kjöri til Alþingis ættu að eiga rétt á þessu framlagi fyrir hvert ár eða hluta úr ári sem samtökin eru á þingi.

Stjórnmálasamtökum sem ná ákveðnu lágmarksfylgi en ekki þingmönnum ætti að tryggja framlag sem nemur helmingi þess sem að ofan er greint en skulu jafnframt gera ítarlega grein fyrir fjárútlátum á hálfs árs fresti.“

Hér er einfaldlega verið að leggja fram hugmyndir um það að hið opinbera útbúi umgjörð um starfsemi stjórnmálaflokka sem dugir þeim til eðlilegs rekstrar, það er ekki flóknara en það. Það má deila um hvort þau þurfi einn, tvo eða þrjá starfsmenn en þau þurfa ekki hundruð milljóna króna á hverju ári, það er alveg fráleitt. Við höfum internet í dag. Framlög til þingflokka frá Alþingi skulu vera þau sömu fyrir alla flokka enda vandséð hvernig stærri flokkar hafi meiri kostnað en minni flokkar nákvæmlega af sömu ástæðum, við höfum internet í dag. Ef eitthvað er þá er það öfugt fyrir minni flokkana sem hafa vegna mannfæðar meiri þörf fyrir t.d. kaup á sérfræðiaðstoð.

Um framlög vegna kosninga segir Hreyfingin að það megi gera ráð fyrir sérstöku framlagi að upphæð 12 milljónum, sem við nefnum sem dæmi, til hvers stjórnmálaafls vegna kosninga til handa þeim sem bjóða fram á landsvísu:

„Framlagið skal hugsað til reksturs framboðsins og kostnaðar vegna upplýsingaefnis en ekki til beinna auglýsinga. Framlagið skal afhent þegar framboðin hafa skilað inn undirrituðum og staðfestum framboðslistum þar sem frambjóðendur hafa verið staðfestir af hálfu þar til bærs eftirlitsaðila (dómsmálaráðuneyti). Ný framboð sem bjóða fram á landsvísu skulu lúta sömu reglum og önnur.

Framboð sem bjóða fram í færri en öllum kjördæmum skulu fá framlög í samræmi við fjölda frambjóðenda sem hlutfallstölu af 126.“

Um auglýsingar leggur Hreyfingin til eftirfarandi:

„Ísland er undantekningartilvik í Evrópu hvað viðkemur auglýsingum stjórnmálasamtaka í ljósvakamiðlum og eina landið sem heimilar slíkar auglýsingar. Almenn regla í Evrópu er að slíkar auglýsingar eru með öllu bannaðar eða þá mjög takmarkaðar. Slíkt ætti einnig að gilda hér á landi.

Opinber kynning.

Aðgengi framboða að ljósvakamiðlum í aðdraganda kosninga þarf að vera tryggt með skylduákvæði í lögum sem gerir ráð fyrir kynningum framboða þeim að endurgjaldslausu t.d. með svipuðum hætti og „Party Political Broadcast“ í Bretlandi sem er á samtengdum rásum ríkis- og einkasjónvarpsstöðva. Slíkt hefur viðgengist hér á landi hvað RÚV varðar en var aflagt í síðustu kosningum vegna andstöðu stærri stjórnmálaafla sem áttu nægilegt fé til að kaupa sér sjónvarpstíma. Kostnaður við framleiðslu efnisins sjálfs er ekki mikill (nema menn vilji) og auðveldlega greiddur af fé flokkana. Svipað fyrirkomulag, þ.e. endurgjaldslaus aðgangur stjórnmálaafla, er algengur í öðrum Evrópulöndum.

Eins má vel hugsa sér að hið opinbera standi að sameiginlegri prentaðri kynningu fyrir öll framboð sem yrði dreift í öll hús. Einhvers konar „Kosningatíðindum“.“

Þetta er einfaldlega dæmi um leiðir sem hægt er að fara ef menn vilja tryggja jafnræði í framboðum til stjórnmála og ef menn vilja tryggja lýðræðislegt jafnræði. Frumvarpið sem við fjöllum um hér gerir allt annað en þetta.

Svo ég ljúki máli mínu þá gengur frumvarpið þvert gegn því sem segir skýrum orðum í niðurstöðu skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis, með leyfi forseta:

„Eitt augljósasta tæki viðskiptalífsins til að hafa áhrif á stjórnmálamenn eru bein fjárframlög, bæði til stjórnmálaflokka og einstakra stjórnmálamanna. […] Leita þarf leiða til þess að draga skýrari mörk á milli fjármálalífs og stjórnmála. Ekki er líðandi að gæslumenn almannahagsmuna gangi erinda einkafyrirtækja með þeim hætti sem gert var í aðdraganda bankahrunsins.“

Alþingi ætlar nú með samþykkt frumvarpsins að sópa þessum athugasemdum undir teppið. Hafi það skömm fyrir.