138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[15:51]
Horfa

Frsm. iðnn. (Skúli Helgason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég fjalla hér um nefndarálit iðnaðarnefndar um tillögu til þingsályktunar um landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu. Tillagan felur í sér að unnin verði svokölluð landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendi Íslands undir forustu iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra þannig að unnt sé að taka vel á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem ferðast um hálendið án þess að gengið sé of nærri því. Í greinargerð með tillögunni kemur fram að ljúka skuli gerð áætlunarinnar fyrir árslok 2015.

Þessi tillaga er borin fram af 13 þingmönnum allra þingflokka og ég vil geta þess strax í upphafi að iðnaðarnefnd styður tillöguna heils hugar og telur að hún veki athygli á afar brýnu verkefni í ferðaþjónustu okkar. Við stöndum frammi fyrir sívaxandi straumi ferðamanna til Íslands, vöxturinn er um 6% á ári og hefur reyndar vaxið afar hröðum skrefum allan þennan áratug og frá aldamótum. Ég man vel eftir því að árið 2000 voru menn með drauma um að fjöldi erlendra ferðamanna það árið mundi ná íbúatölu Íslands eða þar um bil eða í kringum 300 þúsund manns. Það gekk eftir og þótti stórafrek. Árið 2008, einungis átta árum síðar, var fjöldinn hins vegar kominn yfir 500 þúsund manns og var á þeim slóðum á síðasta ári einnig. Og ef fjölgun ferðamanna verður hlutfallslega í samræmi við það sem verið hefur undanfarin ár stefnir í að ein milljón erlendra ferðamanna sæki Ísland heim árið 2016. Þetta er gríðarleg aukning og hún mun reyna mjög á þanþol ferðaþjónustunnar í landinu og ekki vanþörf á því að bregðast strax við með kröftugum aðgerðum til að tryggja að þessi aukna ásókn ferðamanna til landsins komi ekki illa niður á náttúruperlum okkar.

Það er enginn vafi á því að íslensk náttúra er helsta aðdráttarafl fyrir erlenda ferðamenn. Það kemur glöggt fram í könnunum Ferðamálastofu sem gerðar hafa verið, þar á meðal frá árinu 2006, og sömuleiðis í ítrekuðum viðhorfskönnunum sem gerðar hafa verið annað hvert ár frá aldamótum í Norður-Ameríku og framkvæmdar hafa verið á vegum verkefnisins Iceland Naturally. Þar kemur afar glöggt fram að meiri hluti þeirra sem líta til Íslands sem mögulegs áfangastaðar gera það á grundvelli áhuga síns á íslenskri náttúru. Það er jafnframt ljóst að hálendið og ósnortin víðerni þess eiga drjúgan þátt í aðdráttarafli íslenskrar náttúru eins og við sjáum á því að talið er að 170–180 þúsund manns sæki hálendið heim á hverju sumri og 40% erlendra gesta sem hingað koma á hverju sumri sækja heim vinsælustu náttúruperlu hálendisins, Landmannalaugar. Á sama tíma er ljóst að mikið skortir á að skipulag varðandi uppbyggingu ferðaþjónustu á miðhálendinu sé í nægilega föstum skorðum og verður að taka undir þá fullyrðingu 1. flutningsmanns tillögunnar, hv. þm. Sivjar Friðleifsdóttur, að uppbygging aðstöðu á hálendinu hafi í mörgum tilvikum verið handahófskennd. Það er því ljóst að ef við ætlum að viðhalda aðdráttarafli Íslands sem lands hreinleika og ósnortinna víðerna en jafnframt sinna þörfum sívaxandi fjölda erlendra og reyndar innlendra ferðamanna einnig er brýn þörf á markvissri áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands eins og hér er lagt til, áætlun sem jafnframt tekur skýrt tillit til náttúruverndarsjónarmiða.

Virðulegi forseti. Iðnaðarnefnd leggur til tvær meginbreytingar á tillögunni. Í fyrsta lagi er lagt til að breytt verði hugtakanotkun í tillögugrein og heiti tillögunnar þannig að ekki verði stuðst við hugtakið landnýtingaráætlun í tillögunni. Er það gert til að bregðast við umsögn Skipulagsstofnunar sem vakti athygli nefndarinnar á því að hugtakið landnýting er notað í ákveðnum skilningi í skipulags- og byggingarlögum og í skipulagsreglugerð og merkir þar hversu mikil nýting lands er, svo sem nýtingarhlutfall, þéttleika byggðar og ítölu. Einnig kemur fram í sömu lögum og sömu reglugerð að landnotkun er skilgreind sem ráðstöfun lands til mismunandi nota, svo sem undir íbúðir, iðnað, verslun, útivist og landbúnað. Fram komu í máli fulltrúa Skipulagsstofnunar efasemdir um að hægt væri að nota hugtakið landnýtingaráætlun í þeim tilgangi sem tillagan gengur út á vegna framangreindra lagaákvæða í skipulags- og byggingarlögum. Nefndin tekur undir þessi sjónarmið Skipulagsstofnunar og leggur til þær breytingar að fyrirsögn tillögunnar verði „Tillaga til þingsályktunar um áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands“, og að tillögugreinin taki sambærilegum breytingum þannig að hún orðist svo:

„Alþingi ályktar að fela iðnaðarráðherra og umhverfisráðherra að hafa forgöngu um að gerð verði áætlun um ferðamennsku á miðhálendi Íslands þannig að unnt sé að taka vel á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem ferðast um hálendið án þess að ganga of nærri því.“

Sömuleiðis leggur nefndin til að tímaramma áætlunarinnar verði breytt þannig að henni verði lokið fyrr en flutningsmenn lögðu upp með. Það er gert í ljósi þess að þessari hugmynd hefur þegar verið vel tekið í Stjórnarráðinu og menn hafa þegar hafist handa við að vinna í samræmi við markmið hennar. Telur nefndin raunhæft að ætla að áætlunin geti verið tilbúin fyrir árslok 2013 eða tveimur árum fyrr en upphaflega var gert ráð fyrir.

Það er rétt að það komi fram að iðnaðarráðuneytið hefur þegar gengið frá samningi við Háskóla Íslands um að framkvæma áætlun af þessu tagi um ferðamennsku á miðhálendi Íslands og hefur verið gengið út frá því að veittar verði 28 millj. kr. til slíks verkefnis á þriggja ára tímabili af fjárlagalið byggðaáætlunar.

Ég vil að lokum þakka flutningsmönnum, sérstaklega 1. flutningsmanni, hv. þm. Siv Friðleifsdóttur, fyrir þessa merku tillögu og þakka sömuleiðis þá þverpólitísku samstöðu sem náðist í nefndinni um framgang hennar.