138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[15:58]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F):

Frú forseti. Þau eru misjöfn málin sem við ræðum á vettvangi þingsins dagsdaglega en þetta mál er með þeim ánægjulegri. Ég vil þakka hv. formanni iðnaðarnefndar, Skúla Helgasyni, fyrir framsögu hans og það að náðst hafi þverpólitísk samstaða um þessa þingsályktunartillögu sem Siv Friðleifsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, var flutningsmaður að ásamt fleirum hér. Hv. þingmaður hefur lagt sig mikið fram í þessum málaflokki og unnið heilmikla vinnu sem er nú loksins að skila árangri. Rétt er að geta þess að hv. þingmaður gat ekki verið viðstödd umræðuna, hefði gjarnan viljað flytja hér ræðu, þykist ég vita, en er væntanlega núna á leið í viðtalsþátt á Rás 2, þannig að ég geri heiðarlega tilraun til þess að hlaupa í skarð hennar hér.

Það er rétt sem hv. framsögumaður nefndarálitsins vakti athygli á áðan að ferðaþjónustan hefur verið að eflast og stækka að umfangi með miklum hraða á undangengnum árum og nú er það svo að helstu gjaldeyrisskapandi atvinnugreinar þjóðarinnar eru íslenskur sjávarútvegur, íslenskur áliðnaður og síðast en ekki síst ferðaþjónustan. Að sjálfsögðu þurfum við, þegar við tölum um síðastnefnda þáttinn, að móta okkur einhverja framtíðarsýn í ljósi þess hversu ofboðslega stór atvinnuvegur ferðaþjónustan er að verða og þess vegna er mikilvægt að kalla saman alla aðila er málið snerta í samfélaginu til að móta einhverja framtíðarsýn hvað þetta mál áhrærir.

Í þingsályktunartillögunni er kveðið á um að gerð verði landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu þannig að unnt sé að taka vel á móti þeim aukna fjölda ferðamanna sem ferðast um hálendið án þess að ganga of nærri því. Það er ágætt að ræða þetta mál kannski sérstaklega í tengslum við þá utandagskrárumræðu sem fór hér fram í dag og hv. þm. Jón Gunnarsson vakti máls á, því að í þeirri umræðu mátti skilja hæstv. iðnaðarráðherra með þeim hætti og reyndar fleiri ræðumenn að stjórnarandstaðan sæi ekkert nema grátt, þ.e. uppbyggingu í áli og að virkja helst hverja einustu sprænu sem rennur um landið. Svo er að sjálfsögðu ekki og þess vegna er gaman að ræða um þetta mál hér í dag því að auðvitað er íslensk náttúra okkur mjög mikilvæg og íslensk ferðaþjónusta og við þurfum að ganga varlega gagnvart náttúrunni í nýtingu, en að sjálfsögðu viljum við mörg hver nýta það sem landið gefur af sér til annarrar atvinnuuppbyggingar líka. Eins og ég benti á í umræðum hér fyrr í dag hefur umræðan verið full öfgakennd, kannski á báða vegu, og við þurfum að reyna að feta einhvern milliveg þegar kemur að atvinnuuppbyggingu hér á landi. Þess vegna er þessi þingsályktunartillaga svo góð til þess að ná einhverri sátt á milli nýtingarsinna og náttúruverndarsinna um skynsamlega uppbyggingu og vernd.

Það kemur fram í greinargerð með þingsályktunartillögunni að gríðarleg ásókn er á miðhálendið. Meðal annars segir í greinargerðinni að árið 2008 hafi um 26% erlendra ferðamanna farið í Landmannalaugar. Og ef við horfum til þess að rúmlega 500 þúsund erlendir ferðamenn komu það ár til landsins segir þessi prósentutala okkur það að yfir 100 þúsund erlendir ferðamenn hafi lagt leið sína í Landmannalaugar árið 2008. Það er gríðarleg aðsókn og þar fyrir utan er aðsókn íslenskra ferðamanna. Ég held að Íslendingar séu farnir að fara miklu meira um landið í dag en þeir gerðu kannski á velmektarárunum þannig að aðsóknin er mjög mikil. Slíkri aðsókn fylgja að sjálfsögðu heilmikil spjöll og það er mikilvægt að við verndum þessar perlur okkar á miðhálendinu fyrir ágangi ferðamanna, að sjálfsögðu verður að hleypa fólki inn á þessi svæði en aðstaðan verður að vera fyrir hendi. Ég er því ánægður með það að iðnaðarnefnd skuli hafa flýtt þessari aðgerðaáætlun þannig að búið verði að vinna hana árið 2013 en ekki árið 2015 og það er mjög gott að sjá að þverpólitísk sátt er um að hraða þessu máli.

Mér dettur það nú bara í hug, af því að ég ræddi við hv. þm. Siv Friðleifsdóttur áður en til þessarar umræðu var kallað og þá sagði hv. þingmaður mér að hún hefði verið að koma úr göngu um Laugaveginn, hálendið, þriggja, fjögurra daga göngu, og mér kom á óvart sú ásókn sem er um þá gönguleið en um 8–10 þúsund einstaklingar hafa gengið Laugaveginn í sumar. Hér er um að ræða ört vaxandi atvinnugrein og sem náttúruverndarsinni tek ég undir það að stjórnvöld verði að taka sér tak og vernda þessi svæði ef aðstaðan á miðhálendinu til að taka á móti ferðamönnum er ekki með þeim hætti að viðunandi sé, eins og kemur fram í greinargerðinni. Í dag erum við í raun og veru að vinna spjöll á náttúrunni með slíkri ferðaþjónustu, þannig að eins fallegt orð og ferðaþjónusta er þá getur hún líka verið mengandi. Allt helst þetta í hendur.

Ég er mjög ánægður með að við skulum ná þverpólitísku samkomulagi á þinginu um að samþykkja þessa þingsályktunartillögu. Og af því að við gagnrýnum oft ríkisstjórnina og ríkisstjórnarflokkana, að mínu mati oft með ágætisrökum, er ágætt líka að hampa því sem vel er gert, og ég vek athygli á því að hér er verið að samþykkja, vonandi, tillögu sem stjórnarandstæðingur hefur flutt. Við samþykktum líka í morgun þingsályktun um árlega ráðstefnu á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna sem hv. þingmaður Framsóknarflokksins, Höskuldur Þórhallsson, var 1. flutningsmaður að og það mál náðist þverpólitísk samstaða líka. Vonandi munum við í haust ná frekari árangri í því að samþykkja ekki bara þau frumvörp sem stjórnarliðar leggja fram vegna þess að það er margt gott sem kemur frá öllum flokkum og við eigum að fara að ástunda þau vinnubrögð að ná samstöðu um góð mál sama hvort þau koma frá stjórn eða stjórnarandstöðu.

Ég er mjög ánægður með að þetta skuli vera staðreyndin og að allir flokkar skuli sameinast um það að koma umhverfisvernd á miðhálendinu gagnvart ágangi ferðamanna í sæmilegt horf og menn ætli að reyna að flýta þeirri vinnu eins mikið og kostur er. Þetta er ánægjulegur dagur, með ánægjulegri dögum sem ég hef átt í þingsalnum um margra vikna eða mánaða skeið, þannig að ég vona að þetta sé bara forskriftin að því sem koma skal. Ég þakka hv. formanni nefndarinnar og þingmönnum öllum fyrir að leggjast á þetta mikilvæga mál, vonandi verður unnið hratt og vel í þessu og þannig að við getum verndað til langrar framtíðar þá náttúruperlu sem miðhálendi Íslands er.