138. löggjafarþing — 150. fundur,  3. sept. 2010.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[16:07]
Horfa

Frsm. iðnn. (Skúli Helgason) (Sf) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil fagna hinum jákvæða tóni í ræðu hv. þm. Birkis Jóns Jónssonar. Ég er bjartsýnn eins og hann á að við höfum ýmis tækifæri í þinginu á komandi vikum og mánuðum til að sýna að grundvöllur er fyrir meiri samvinnu á milli stjórnar og stjórnarandstöðu. Ég bind t.d. vonir við að við getum stigið sögulegt skref í því að koma rammaáætlun um vernd og nýtingu náttúrusvæða farsællega í gegnum þingið. Það er afar mikilvægt tæki til að reyna að hefja sig upp úr þeim hjólförum sem menn hafa haft tilhneigingu til að detta ofan í umræðu um nýtingu landsins og auðlindanna.

Ég tel líka að það sé stefnumótandi og afar mikilvægt frumvarp sem lagt hefur verið fram um breytingar á þingsköpum Alþingis til þess einmitt að styrkja stöðu stjórnarandstöðunnar. Það getur skipt heilmiklu máli um vinnubrögðin hér í þinginu í framhaldinu. Auðvitað er það þannig að þjóðin hefur kosið okkur öll hér inn og ætlast til að allir vinni hér af heilindum og sjónarmið og stefna og atgervi allra séu nýtt en ekki eingöngu þeirra sem veljast til meirihlutastarfa hverju sinni.