138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

framkvæmdir í vegamálum.

[10:33]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Ögmundur Jónasson) (Vg):

Hæstv. forseti. Ég mun ekki bregða fæti fyrir nein þau áform sem þegar eru í pípunum. Ég er að kynna mér þessi mál og mun eiga fund með fyrrverandi samgönguráðherra á eftir til að fara yfir þau. Á morgun kl. hálfþrjú hefur verið boðað til fundar í ráðuneytinu með fulltrúum lífeyrissjóða, Vegagerðarinnar og annarra þeirra sem að þessum málum koma.

Það er alveg rétt að ég hef haft efasemdir um einkaframkvæmd í vegamálum sem öðrum málum. Ég vil taka fram að mér finnst eðlilegt að nýta fjármuni lífeyrissjóðanna til uppbyggingar á okkar innra stoðkerfi innan velferðarþjónustunnar í samgöngumálum og í prinsippinu er ég síður en svo andvígur því að áfram verði unnið að þeim áformum sem þegar eru á teikniborðinu. Hvað fyrirkomulagið áhrærir, með hvaða hætti þetta verður gert, á einfaldlega eftir að upplýsa um. Þetta er á viðræðustigi og ég mun fara inn í þær viðræður þegar á morgun.