138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við væntanlegum dómi Hæstaréttar um gengistryggð lán.

[10:38]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F):

Virðulegi forseti. Mig langar aðeins að ræða við efnahags- og viðskiptaráðherra og óska hæstv. ráðherra um leið til hamingju með að hafa skipt um stól. Þessar breytingar á ríkisstjórn líkjast því reyndar helst að ríkisstjórnin hafi gert kyrrstöðusamning við sjálfa sig líkt og bankarnir gera við valda viðskiptavini í dag, þ.e. til að viðhalda sjálfri sér sama hvað það kostar og sama hvernig þarf að greiða af.

Mig langar að spyrja hæstv. ráðherra hvort ráðuneyti hans og ríkisstjórnin hafi undirbúið einhver viðbrögð við væntanlegum dómi Hæstaréttar út af gengistryggðum lánum. Við þekkjum öll hver viðbrögð ríkisstjórnarinnar voru á sínum tíma þegar dómur héraðsdóms féll og því hljótum við að spyrja hvort ríkisstjórnin, og þá sérstaklega ráðherra, sé búin að fara yfir það í sínum ranni hvernig eigi að bregðast við dómi Hæstaréttar. Verður nú breytt um stíl og kúrsinn tekinn með fólkinu í landinu, með skuldurunum, eða mun ríkisstjórnin aftur bregðast við með hagsmuni bankanna eða fjármagnseigenda í huga og kynna okkur einhver viðbrögð eða breytingar þegar þetta liggur fyrir?

Ég held að það sé mjög mikilvægt fyrir þingheim að hafa alveg á hreinu hvernig ríkisstjórnin ætlar að bregðast við því að þessi dómur muni væntanlega marka ákveðin tímamót. Ég trúi því varla, frú forseti, að ráðherra komi hér upp og segi að ekki hafi verið hugað að þessu. Því er mikilvægt að fá að vita nú þegar hver stefnan verður varðandi þetta mál.