138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

viðbrögð ríkisstjórnarinnar við væntanlegum dómi Hæstaréttar um gengistryggð lán.

[10:40]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrirspurnina. Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að það væri mikilvægt að ágreiningur um gildi samninga væri leystur fyrir dómstólum. Það er grundvallarregla í réttarríki og á það hef ég alltaf lagt mikla áherslu. Við bíðum auðvitað niðurstöðu Hæstaréttar í gengislánamálum. Á vettvangi ráðuneytisins hefur verið unnin ákveðin greiningarvinna á því hvað ólík niðurstaða gæti haft í för með sér. Við munum kappkosta að hafa tilbúin viðbrögð. Það er alveg ljóst að það kann að verða ástæða til lagasetningar í kjölfar niðurstöðu Hæstaréttar, sérstaklega til að greiða úr óvissu, til að tryggja t.d. öllum sama rétt og koma í veg fyrir að fólk fái mismunandi úrlausn eftir því hvernig formi samninga er háttað. Farið verður yfir öll þessi sjónarmið og við munum útbúa viðbrögð miðað við ólíkar forsendur. Ég held að það skipti miklu máli að eiga um það gott samstarf við þingheim.

Það er vissulega rétt sem hv. þingmaður segir, það er mikilvægt að nálgast þetta mál með hagsmuni almennings í huga. Almannahagsmunir eru auðvitað að fólk fái notið þeirra réttinda sem það á rétt á samkvæmt samningum sem það hefur gert en það eru auðvitað líka almannahagsmunir að það sé fjárhagslegur stöðugleiki í landinu og að fjármálastöðugleika sé ekki teflt í tvísýnu. Ég held að það sé hægt að finna lausnir í þessum málum sem skila árangri með þeim hætti að bæði markmiðin náist.