138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:53]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það kemur mér á óvart ef hv. þingmaður var fjarverandi umræður um málefni um skuldir heimilanna í vor. Hér voru lögð fram fjöldamörg frumvörp sem höfðu það að markmiði að styðja við samninga fólks við bankana, auðvelda fólki leið út úr ósjálfbærri skuldastöðu og það var komið á embætti umboðsmanns skuldara til að greiða fyrir því og til að halda bönkunum við efnið í þessum umbreytingum. Um þessa leið var mikil sátt í þingsölum og mikil eindrægni um meðferð þessara mála. Þarna lögðum við grunninn að því hvernig ætti að taka á skuldavanda heimilanna.

Það sem við bíðum núna eftir er að sjá gengislánadóminn koma fram þannig að hægt sé að ráðast í aðgerðirnar hratt og örugglega. Þessi mál eru á verksviði hæstv. félagsmálaráðherra og ég er þess fullviss að hann muni halda mjög vel á spöðunum, enda skiptir mjög miklu máli að tekið verði hratt og örugglega á þessari skuldastöðu. Það skiptir þó ekki síður máli að taka á skuldastöðu fyrirtækjanna því að meðan innlendi fjárfestingargeirinn er svona veikur, meðan hvorki heimili né fyrirtæki eru í stakk búin til að fjárfesta vegna þess að þau eru með svo mikla skuldabyrði vegna einhverra fortíðarsynda, verður mjög erfitt um endurreisnina. Það skiptir miklu máli fyrir okkur að taka hart og hratt og vel á þessum málum. Allt sem við höfum gert varðandi skuldir heimilanna miðar að því. Þegar hv. þingmaður teflir fram sem andstæðu við það einhverri lausn um flatar niðurfellingar skulda sem hvorki hann né aðrir talsmenn þeirrar leiðar hafa nokkru sinni getað útskýrt hvernig eigi að fjármagna (HöskÞ: Það er ekki …) kemur hann ekki (Gripið fram í.) með raunhæfar lausnir eða raunhæf svör. (VigH: Samfylkingin …)