138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

skuldir heimilanna.

[10:57]
Horfa

efnahags- og viðskiptaráðherra (Árni Páll Árnason) (Sf):

Virðulegi forseti. Það er athyglisvert að eiga orðastað við hv. þingmann því að öll svörin voru sett fram í vor. Við erum búin að koma á þessu kerfi. Við höfum styrkt réttarstöðu skuldara þannig að hún er óþekkjanleg frá því sem áður var. Og embætti umboðsmanns skuldara mun taka hart og hratt á þessum málum. Gengisdómurinn og óvissan í kringum nákvæmlega umfang gengislánanna hefur auðvitað truflað það ferli aðeins en um leið og niðurstaða liggur þar fyrir verður hægt að taka til óspilltra málanna.

Það er hins vegar mikilvægt að menn horfist í augu við það að hugmyndir um flata niðurfellingu skulda hafa aldrei getað gengið upp og enginn hefur getað útskýrt hvernig á að vera hægt að láta þær virka (Gripið fram í: Þetta er bara rangt.) öðruvísi en með því að rýra verulega eignastöðu lífeyrissjóðanna, þar með lækka verðtryggðan lífeyri aldraðra, lækka lífeyrisréttindi venjulegs fólks, og það er mjög erfitt að horfast í augu (Gripið fram í.) við slíkar lausnir. Það er líka eignatilfærsla, hv. þingmaður. [Háreysti í þingsal.]