138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

atvinnuuppbygging.

[11:04]
Horfa

iðnaðarráðherra (Katrín Júlíusdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég var bara að svara hv. þingmanni sem byrjaði sína ræðu á því sjálfur að tala um Icesave og ég taldi að hann vildi líka fá skoðun mína á því máli.

Svo við förum í spurningar hv. þingmanns er alveg ljóst að neðri hluti Þjórsár og hvernig farið verður með virkjanir þar er í ferli rammaáætlunar þannig að þingið mun fjalla um það mál hér í vetur (Gripið fram í.) og verði niðurstaðan sú — (Gripið fram í.)

Virðulegi forseti. Er hægt að fá að tala við þingmenn án þess að þeir séu með stöðug frammíköll? (Gripið fram í.) Hv. þingmaður kallaði eftir svörum mínum og ég er að svara honum. Hann virðist ekki þola að sitja undir gagnrýni eins og ég kom með áðan út af Icesave, þess vegna er hann allur úr jafnvægi.

Niðurstaðan er þessi: Neðri hluti Þjórsár er í ferli rammaáætlunar og það er það ferli sem við höfum valið því svæði. Ég styð þá niðurstöðu sem mun koma út úr því ferli og þingið mun fjalla lýðræðislega um hana. Þetta eru þá líklega — (Gripið fram í.) Ef þingið kemst að þeirri niðurstöðu að það eigi að fara í þær virkjanir eru þær nærtækastar í tíma í framhaldinu af því. (Forseti hringir.)

Virðulegi forseti. Ég vil gjarnan eiga orðastað við hv. þingmann en þessi frammíköll sem hér eiga sér stað eru ekki boðleg fyrir okkur ráðherra. (Gripið fram í: Boðleg?)