138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

árleg ráðstefna á Akureyri um málefni heimskautasvæðanna.

341. mál
[11:11]
Horfa

Siv Friðleifsdóttir (F) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari tillögu sem hv. þm. Höskuldur Þórhallsson hefur tekið frumkvæði að í félagi við aðra þingmenn og mun styðja hana. Ég sé líka ástæðu til að óska þinginu sérstaklega til hamingju með það að í dag munum við samþykkja tvær þingsályktunartillögur, báðar frá stjórnarandstæðingum, þ.e. þessa frá hv. þm. Höskuldi Þórhallssyni og aðra frá þeirri er hér stendur, um áætlun um ferðamennsku á miðhálendinu. Þar með hefur þingið samþykkt 12 þingsályktunartillögur frá þingmönnum. Við höfum líka samþykkt fjögur lagafrumvörp. Þetta er stórmerkilegt og sýnir að þingið hefur tekið meira frumkvæði og er að taka til sín meira vægi. Ég sé sérstaka ástæðu til að fagna því. (Gripið fram í: Heyr, heyr.)

Ég vil segja af þessu tilefni: Burt með hin gömlu, úldnu vinnubrögð hér á þinginu. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) Inn með þessi nýju vinnubrögð. Við skulum samþykkja góð mál hér, hvort sem þau eru frá stjórn eða stjórnarandstöðu, og líka frá þingmönnum, ekki bara frá ráðherrum. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Forseti hringir.) Það er sérstakt fagnaðarefni, virðulegur forseti, að við getum samþykkt svona góð mál frá þingmönnum hér öll saman. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í: … yndislegt.) [Hlátur í þingsal.]