138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

landnýtingaráætlun fyrir ferðamennsku á miðhálendinu.

19. mál
[11:24]
Horfa

Þór Saari (Hr):

Virðulegur forseti. Ég fagna þessari tillögu samhliða því að hér er um þingmannamál að ræða sem er samþykkt og eins og hv. þm. Siv Friðleifsdóttir sagði er að mörgu leyti um mjög merkilega þróun að ræða. Mér hrýs hugur við þeim spám að ein milljón ferðamanna verði á Íslandi á ári. Ég ferðaðist um landið í 40 daga í sumar og ég upplifði það sem ég kalla einfaldlega ferðamannamengun á mörgum stöðum. Það er einboðið að ef svo fer sem horfir með spár um fjölgun ferðamanna þá verði að huga að því að taka upp takmarkanir á fjölda fólks og jafnvel takmarkanir á fjölda ferðamanna til landsins. Það er einkennileg staða en þetta er engu að síður sú staðreynd sem við stöndum frammi fyrir og ég velti því hér með upp hugtakinu ferðamannamengun í því sambandi.