138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

fundarstjórn.

[11:58]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S):

Virðulegi forseti. Þegar frumvarpi til laga um Stjórnarráðið var vísað til 2. umr. og hv. nefndar gerði ég það að tillögu minni og óskaði eftir því að þessu máli yrði jafnframt vísað til umsagnar einstakra fagnefnda sem málið varðaði. Þetta mál er af þeim toga að það snertir ekki bara eiginlegt skipulag Stjórnarráðsins heldur kemur inn á málasvið fjölmargra ráðuneyta og þess vegna er eðlilegt að málið komi til umfjöllunar í þeim fagnefndum sem fara með viðkomandi málaflokka.

Nú sé ég á fyrirliggjandi nefndaráliti að einhverra hluta vegna hefur það ekki verið gert, þ.e. því hefur ekki verið vísað til fagnefndanna. Mér er t.d. kunnugt um að það fór ekki til sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar þar sem ég á sæti og málið varðar svo sannarlega. Þess vegna geri ég það að tillögu minni, strax í upphafi þessarar umræðu þannig að það liggi alveg fyrir, að þetta mál fari á milli 2. og 3. umr. til nefndar að nýju og að sú nefnd vísi málinu til umsagnar viðeigandi fagnefnda eins og efni og ástæður eru til.