138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

fundarstjórn.

[12:05]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég gat ekki skilið hv. þm. Róbert Marshall öðruvísi en svo en hann væri að íhuga það að senda þetta inn í fagnefndirnar og ég fagna þeim viðbrögðum hv. þingmanns. Menn geta haft allar skoðanir á því og það kom mér svolítið á óvart undir þessum lið að menn teldu að það væri í það minnsta ekki verra að láta ríkisstjórnina sjá um þetta af því að menn hafa talað um það sérstaklega að það væri mikilvægt að þingið styrkti stöðu sína og hér er ekki um neitt smámál að ræða. (RM: Ég var ekki að tala fyrir því.) Hv. þingmaður kallar að hann hafi ekki verið að tala fyrir því svo það sé bara skýrt. En þá liggur það líka alveg fyrir að ef þingið ætlar að gera þetta á þingið að gera það vel. Engar nefndir þekkja þessi mál betur heldur en viðkomandi fagnefndir.

Ég veit að hv. þm. Róbert Marshall er sanngjarn maður sem vill vel í sínum störfum og ég efast ekki um að hann muni drífa í því að senda þetta til umsagnar í nefndunum og fagna ég því.