138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:19]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég hef í sjálfu sér ekki kynnt mér sérstaklega þá bókun sem hv. þingmaður vakti máls á í fyrirspurn sinni. Af því svari leiðir að það var ekki rætt neitt sérstaklega innan nefndarinnar. Tilgangur umsagnaferlisins og umræðna í nefndum er að tryggja að gerðar séu lagabreytingar í samræmi við m.a. stjórnarskrá og þær viðteknu hefðir og reglur sem við höfum sett okkur. Ég geri ráð fyrir því að ef það er rétt sem þarna kemur fram hefði það komið fram í meðferð nefndarinnar.

Ég vek líka athygli á því að í umræðunni um fundarstjórn forseta hér rétt áðan var óskað eftir því að málið kæmi inn til umfjöllunar í fagnefndum. Ég mun beita mér fyrir því, að því marki sem það mun ekki tefja fyrir framgangi málsins, að það náist til umfjöllunar í félags- og tryggingamálanefnd og heilbrigðisnefnd. Við erum búin að fjalla um málið í allsherjarnefnd þannig að það þarfnast kannski ekki frekari umfjöllunar þar (VigH: Tekið út í óþökk.) en ég tel fullkomlega eðlilegt að það verði fjallað um það í samgöngunefnd líka ef óskað er sérstaklega eftir því að málið fari til umfjöllunar í svokölluðum fagnefndum. Tekið út í ósátt, hrópar hv. þm. Vigdís Hauksdóttir. (Gripið fram í.) Því miður er ekki hægt að taka öll mál út í sátt. Það hefur legið fyrir að það er ekki sátt á milli stjórnar og stjórnarandstöðu um þetta mál, og það er ekki heldur sátt innan stjórnarandstöðunnar um þetta mál.