138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[12:55]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Það er alveg rétt hjá hæstv. forsætisráðherra að alls konar breytingar á Stjórnarráðinu og skipan ráðuneyta hafa verið í umræðu í þjóðfélaginu um langt skeið. Það er líka rétt að flestir stjórnmálaflokkar hafa líklega einhvern tíma lýst þeirri skoðun sinni að það bæri að fækka ráðuneytum, sameina þau og breyta.

Við sjálfstæðismenn í allsherjarnefnd leggjum áherslu á í nefndaráliti okkar að við útfærslu þessara breytinga hefur ekki verið unnið nægilega vel og á því ber forsætisráðherra ábyrgð. Forsætisráðherra og enginn annar ber ábyrgð á því að undirbúa málið sem hún leggur fram í nafni ríkisstjórnarinnar þannig að búið sé að vinna heimavinnuna. Við höfum ákveðnar viðmiðanir í þessu sambandi. Við höfum handbókina frá 2007 sem mér vitanlega hefur ekki verið numin úr gildi og hefur verið ágæt pólitísk samstaða um að væri leiðbeining um góð vinnubrögð.

Síðast í ágúst setti ríkisstjórnin sjálf fram það sem kallað er endurskoðaðar reglur um frágang lagafrumvarpa. Gefin var út fréttatilkynning 20. ágúst þar sem sagt var að ríkisstjórnin hefði samþykkt það sérstaklega. Ef handbókin er lesin og borin saman við lagafrumvarpið og reglurnar frá 20. ágúst eru einnig bornar saman við lagafrumvarpið er alveg ljóst að það stenst engar þær kröfur sem gerðar eru í þessum leiðbeiningarreglum. Það er fínt og flott að setja fram sjónarmið um góðar reglur og vönduð vinnubrögð. Vandinn er bara sá að því er í raun og veru ekki framfylgt.