138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:02]
Horfa

Frsm. meiri hluta allshn. (Róbert Marshall) (Sf) (andsvar):

Virðulegur forseti. Mig langar til að beina orðum mínum til hv. þm. Birgis Ármannssonar. Það er ljóst á nefndaráliti þess minni hluta allsherjarnefndar sem hann mælir fyrir að Sjálfstæðisflokkurinn er hættur að vera frjálshyggjuflokkur. Sjálfstæðisflokkurinn er nú bara gamaldags íhaldsflokkur. (Gripið fram í.) Miklu betra, segir hv. þingmaður hér til hliðar. En það er greinilegt að sú gamla hugmyndafræði sem löngum þótti nýstárleg og naut framdráttar innan Sjálfstæðisflokksins hefur liðið undir lok, þ.e. báknið burt, að minnka ríkisvaldið eða draga úr umsvifum ríkisins og (Gripið fram í.) reyna að hafa það sem minnst. Það er greinilegt að sú hugmyndafræði hefur liðið undir lok.

Mig langar til þess að gera athugasemdir við framsetningu hv. þingmanns þegar hann víkur að kostnaði vegna þess að í umsögn fjármálaráðuneytisins segir að með þessum aðgerðum verði sparnaðurinn í launakostnaði og starfsmannakostnaði 360 milljónir á ári auk þess sem nást muni hagræðing þegar kemur að húsnæði. (Gripið fram í.) Hér segir hinn framsækni Sjálfstæðisflokkur í áliti sínu að ástæða sé til endurskoðunar á stjórnarráðslögunum um fjölda ráðuneyta og verkaskiptingu þeirra en það eru ekki neinar hugmyndir, engar tillögur, engin vinna sem farið hefur fram á vegum Sjálfstæðisflokksins í sumar í þessum efnum, ekkert sem talsmenn minni hlutans í nefndinni leggja beinlínis til. Hví er það?