138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[13:04]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta allshn. (Birgir Ármannsson) (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég ætla ekki að eyða orðum í almenn ummæli hv. þm. Róberts Marshalls um það hvort Sjálfstæðisflokkurinn hafi horfið frá frjálshyggjustefnu eða ekki. Sjálfstæðisflokkurinn hefur alltaf öðrum þræði verið íhaldsflokkur og öðrum þræði verið frjálslyndur flokkur eða frjálshyggjuflokkur. Þessir þræðir eru báðir í hinum margslungna vef Sjálfstæðisflokksins.

Varðandi vilja okkar til að draga úr kostnaði hins opinbera ítreka ég það sem segir í nefndarálitinu að við teljum að full ástæða sé til að skoða hvernig á að gera þetta. Við teljum ástæðu til að fara í þetta verkefni, við höfnum því ekki. Við viljum bara að það sé gert almennilega, ekki farið fram með svona bútasaum eins og ríkisstjórnin gerir.

Ég vek athygli á því, af því að hann ætlar að snúa málinu upp á stjórnarandstöðuna, að stjórnarandstaðan hafi ekki tillögur, að það er nú nokkur aðstöðumunur milli ríkisstjórnar og stjórnarandstöðu þegar kemur að því að útfæra tillögur um Stjórnarráðið. Ef við því erum að velta fyrir okkur einstökum útfærslum er alveg ljóst að Stjórnarráðið hefur miklu betri tök á því, og ráðherrar í ríkisstjórn, að láta vinna slíka grunnvinnu en einstakir nefndarmenn í allsherjarnefnd. Ef við erum raunsæ er það bara þannig. En kannski er nauðsynlegt að það sé gert á vettvangi allsherjarnefndar þegar ríkisstjórnin vinnur ekki heimavinnuna sína í þessum efnum. Það hefur ekki verið gert enn þá, við höfum ekki farið í neina svona grundvallarskoðun í allsherjarnefnd. Afstaða okkar hefur reyndar verið sú að málið væri einfaldlega þannig vanbúið að ekki ætti að afgreiða það. Það er afstaða sem við höfum látið koma skýrt fram frá upphafi. Þrátt fyrir að málið skáni við það að helmingurinn sé skorinn í burtu, það skánar í bili, (Forseti hringir.) heyrast enn gagnrýnisraddir hvað varðar þær breytingar sem eftir standa.