138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:29]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þessi ræða og sú sem hana flutti er talandi skýring á því hvers vegna Framsóknarflokkurinn hefur tapað þriðjungi af fylgi sínu frá því sem það var í skoðanakönnunum á síðasta ári. Hvað veldur því að þingmenn flokksins halda ræður sem eru fullar af slíku endemisbulli, líkt og sú sem hv. þingmaður flutti hér áðan? Hvað veldur því að hv. þingmaður leyfir sér að spinna upp sögur og blekkingar og vitleysu? Er það vegna þess að hún er vísvitandi að fara með ósannindi eða er þingmaðurinn ekki nógu vinnufús til að lesa heima? Hv. þingmaður sagði að í sumar hefði verið stofnuð lagaskrifstofa í forsætisráðuneytinu, að því er virtist af máli hennar í heimildarleysi, og að þangað hefðu verið ráðnir starfsmenn án auglýsingar. Þetta eru ósannindi. Þetta er bull og þvæla. Auðvitað gæti hv. þingmaður komist að raun um þetta. Þetta hefur örugglega verið upplýst í vinnu nefndarinnar, hlýtur að hafa verið spurt að því fyrst þetta liggur svona þungt á hjarta hv. þingmanns. Staðreyndin er sú að þrír starfsmenn voru ráðnir. Upphaflega hugmyndin að lagaskrifstofunni kom reyndar úr ranni Framsóknarflokksins fyrir sennilega sjö eða átta árum. Þeir voru allir ráðnir samkvæmt auglýsingu. Þegar þingmaðurinn kemur svo og segir að ríkisstjórninni detti ekki í hug að auglýsa eitt einasta starf — frú forseti, málflutningur af því tagi er ástæðan fyrir því að enginn treystir Framsóknarflokknum.

Mér þótti merkilegt að hv. þingmaður talaði um alla skapaða hluti nema efni málsins. Hvaða efnisleg rök eru með eða á móti því að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti? Og hvað ræður stefnu þessa hv. þingmanns? Framsóknarflokkurinn hefur ekki breytt um stefnu í þessu máli frá því hann samþykkti á flokksþingi sínu fyrir nokkrum árum stuðning við að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti. Er hv. þingmaður að spinna upp nýja stefnu flokksins ofan á allt annað, bara svona upp á eigin spýtur?