138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:41]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hér talaði hv. formaður allsherjarnefndar. Það er alveg augljóst hvað þarf að eiga sér stað inni í allsherjarnefnd, nefndarmenn verða að kynna sér málið. Það er reglugerðarákvæði í lögum Stjórnarráðs Íslands um að það megi fara fram með þessa breytingu án þess að leggja hana fyrir þingið. Öll eftirfylgnin þarf að koma fyrir Alþingi. Raunverulega skiptir það ekki máli hvort farið er með frumvarp inn í þingið með þessum hætti eða ekki, því umræðan mun fara fram þegar þessi breyting fer inn í það sem við köllum bandorm og þá þarf að breyta nöfnum alls staðar. Þannig að það er ekki nema pínulítill hluti af því sem þarf ekki að fara í gegnum þingið, en vissulega viljum við fá öll mál fyrir þingið sem skipta máli.

Ég tek eftir því að hv. þm. Róbert Marshall skorast undan því að svara þeirri spurningu sem ég beindi til hans og hann kom hér í andsvar við mig vegna: Hvenær á að stofna atvinnuvegaráðuneytið? Hvenær ætlar ríkisstjórnin að láta næst til skarar (Forseti hringir.) skríða? Hvaða dagur og hvaða mánuður verða fyrir valinu? Því það er það sem allir eru að bíða eftir.