138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:43]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Vigdísi Hauksdóttur fyrir ræðuna hér áðan og hvernig hún fór yfir málið og hvernig það hefur verið unnið í nefndinni. Ég verð að segja fyrir mína parta að það veldur mér miklum vonbrigðum að málið hafi verið tekið út í ágreiningi í nefndinni, eins og kom fram í máli hv. þingmanns. Ég batt miklar vonir við það vegna þess að í vor var talað um að reynt yrði að ná sátt og samkomulagi milli stjórnar og stjórnarandstöðu, eins og hv. allsherjarnefnd gerði einmitt síðastliðið vor þegar við samþykktum lögin um stjórnlagaþingið. Þar stóð hv. allsherjarnefnd sig mjög vel og náði niðurstöðu með því að allir beygðu eitthvað af kúrs þannig að sæmileg pólitísk sátt og samstaða var um það mál þótt flestir hefðu kannski viljað hafa það öðruvísi út frá sínum eigin skoðunum.

Mig langar til að spyrja hv. þingmann, sem á sæti í allsherjarnefnd sem ég á ekki, um það að í nefndaráliti hennar kemur fram að þetta eigi að spara töluverða peninga, 360 milljónir þegar fram líða stundir, en í nefndaráliti hennar kemur líka fram að það eigi ekki að segja neinum upp og að allir þeir starfsmenn sem eru nú þegar inni í ráðuneytunum eigi að halda störfum sínum áfram. Hefur það verið rætt efnislega í nefndinni hvernig staðið verði í raun og veru að því að halda því til streitu að halda starfsfólkinu en ætla samt að spara og fækka ráðuneytum?

Eins er annað sem kemur fram í nefndaráliti hjá hv. þingmanni sem vekur mér mikla furðu. Hv. þingmaður virðist hafa óskað eftir því að fá uppgefinn starfsmannafjölda í hverri stofnun og hverju ráðuneyti en þær upplýsingar fengust ekki. Mig langar til að spyrja hv. þingmann: Hver er ástæðan fyrir því að hv. þingmaður fékk ekki þær upplýsingar? Það ætti nú að vera mjög auðvelt fyrir framkvæmdarvaldið að upplýsa hv. þingmann um hver fjöldi starfsmanna er í stofnunum hjá framkvæmdarvaldinu.