138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[15:45]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka kærlega fyrir þær spurningar sem fyrir mig eru lagðar hér. Formaður allsherjarnefndar hefur látið hafa það eftir sér að hann undrist það mjög að meira að segja stjórnarandstaðan gat ekki verið sammála í því að vera á móti ríkisstjórninni í þessu máli. Eins og ég benti á eru fleiri en einn flokkur í stjórnarandstöðu þannig að þetta sýnir kannski andrúmsloftið sem við vorum að kljást við í allsherjarnefnd þegar málið kom á dagskrá.

Ástæðan fyrir því að málið er keyrt í gegn með offorsi er að mínu mati sú að ríkisstjórnin gat ekki komið hér til þings í byrjun september án þess að vera búin að skipta út ráðherrum og gera breytingar á ráðherraliðinu, búin að færa ráðherra á milli stóla, t.d. fyrrverandi hæstv. félagsmálaráðherra sem bar ábyrgð á miklu klúðri í kringum ráðningu forstjóra Íbúðalánasjóðs sem ekki er enn búið að ráða o.s.frv. Hann var færður í annað ráðuneyti og þessu skyndilega öllu skellt í lás og ráðherrum fækkað, þannig að það var nú fyrst og fremst, að ég held, þess vegna að verið er að vinna þetta í svona miklum flýti og ekki hægt að uppfylla það samráð sem talað er um í greinargerðinni.

Hv. þingmaður talaði um starfsmannamálin. Augljóslega á að fara af stað einhver hringekja innan húss í Stjórnarráðinu þar sem skýrt kemur fram að allir starfsmenn haldi vinnu sinni og verði fluttir til í störfum. Þegar upp verður staðið verður sparnaðurinn sá að þrír ráðherrar hætta og svo eru eftirlaunaákvæði og annað, þannig að sparnaðurinn kemur fyrst og fremst þar. En það sjá það allir að ef hagræða á hjá ríkinu verður að skoða starfsmannamál. Sameiningar stofnana og ráðuneyta ganga náttúrlega fyrst og fremst út á að samnýta starfsfólkið ekki síður en tölvuútbúnað og húsnæði.

Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson spurði um undirmenn í undirstofnunum. Mér var sagt, (Forseti hringir.) og allsherjarnefnd, að það væri tímaskortur og tók ég það gott og gilt á meðan á því stóð. En eftir á sé ég að auðveldlega hefði verið hægt að útvega þessar upplýsingar.