138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:10]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þór Þórðarsyni fyrir yfirferð hans. Þar sem hann á ekki sæti í allsherjarnefnd vil ég upplýsa að nefndin fékk aðeins einn gest á sinn fund. Það var ekki neitt annað í boði. Það var lögfræðingur úr forsætisráðuneytinu, það kemur fram í fyrstu línu nefndarálitsins, Arnar Þór Másson. Restinni var ekki sinnt. Vissulega bárust umsagnir í sumar hipsumhaps en þingmaðurinn hefur sannarlega farið vel yfir að það vantar umsagnir frá stórum hagsmunaaðilum. Það reiknaði enginn með því að málið færi út nú á haustþinginu. En ríkisstjórnin treysti sér ekki til að koma til þings með óbreytt ráðherralið eins og ég sagði áðan. Það varð einhvern veginn að fríska hana upp, setja hana í andlitslyftingu, koma með ný andlit á gömlum belgjum og fríska hana þannig upp að hún gæti lifað af veturinn. Ríkisstjórnin var búin að sjá það út að stjórnarandstaðan mundi ekki leyfa ráðherra, sem bæði sagði ósatt og gaf villandi upplýsingar, að sitja hér í friði. (Gripið fram í.)

Það merkilegasta við þetta allt saman er að enn sitja í ríkisstjórninni tveir ráðherrar sem áttu þátt í hrunstjórninni, hæstv. utanríkisráðherra Össur Skarphéðinsson og hæstv. forsætisráðherra Jóhanna Sigurðardóttir, eins og ekkert sé. (Gripið fram í.) Væri ríkisstjórninni einhver alvara með að fara í alvöruandlitslyftingu mundu þessir ráðherrar fara fyrstir úr ráðherrastólum en það eru miklir hagsmunir sem gera það að verkum að þeim dettur ekki í hug að segja af sér.

Þá kem ég að spurningunni: Þar sem þingmaðurinn hefur starfað sem ráðherra og fór yfir svokallaðar sparnaðartillögur í frumvarpinu, sem eru nánast engar, finnst honum nóg að gert í sparnaði við sameininguna? Finnst honum það forsvaranlegt að einungis sé boðaður 2% sparnaður í frumvarpinu í heild sinni og það meira að segja áður en búið er að taka út (Forseti hringir.) atvinnuvegaráðuneytið?