138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:15]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta allshn. (Vigdís Hauksdóttir) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þm. Guðlaugi Þ. Þórðarsyni kærlega fyrir. Það vildi svo til að hv. þingmaður hitti naglann á höfuðið. Svo virðist nefnilega vera að það sé ekki þjóðin eða farsæld hennar sem skiptir ríkisstjórnina skiptir máli heldur líf ríkisstjórnarinnar. Það hefur sýnt sig síðustu daga. Skipt er um ráðherra í ríkisstjórn, nöfnum á ráðuneytum er breytt eingöngu til þess að vinstri velferðarríkisstjórnin haldi lífi, nái að standa af sér þennan storm þó að hún ráði ekki neitt við verkefnin og stundi kattasmölun nánast hvern einasta dag, og svo virðist vera með hina nýju ráðherra sem koma inn í ríkisstjórnina að búið sé að múlbinda alla vega einhverja af óþekku köttunum.

Mig langar að spyrja hv. þm. Guðlaug Þór Þórðarson vegna þess sem stendur í nefndaráliti frá meiri hluta allsherjarnefndar, með leyfi forseta:

„Meiri hlutinn leggur áherslu á að áfram verði unnið að undirbúningi og samráði vegna atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytis og umhverfis- og auðlindaráðuneytis, þó ekki sé lögð til afgreiðsla á þeim hluta málsins nú, þannig að allar fyrirhugaðar ráðuneytabreytingar nái fram að ganga eigi síðar en áformað var samkvæmt frumvarpinu.“

Hvert er mat þingmannsins á því hvenær ríkisstjórnin lætur til skarar skríða á ný við að sameina þessi ráðuneyti og stofna atvinnuvegaráðuneyti? Við vitum að mikil andstaða er við stofnun atvinnuvegaráðuneytis innan annars ríkisstjórnarflokksins, Vinstri grænna. Telur þingmaðurinn að þetta fari fram í mikilli ósátt þegar þar að kemur og hver telur þingmaðurinn að séu næstu skref í málinu? Gerist þetta um áramótin? Verður settur ráðherra yfir þetta um áramótin eða eftir sex mánuði? Því miður gat formaður allsherjarnefndar ekki svarað mér þessu áðan.