138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:19]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Þetta eru fróðlegar umræður. Það er til marks um óendanlegt þanþol íslenskrar tungu að hún skuli standa af sér ræður hv. þm. Vigdísar Hauksdóttur. Hv. þingmaður sagði áðan að ríkisstjórnin hefði kosið að koma til þings með ný andlit á nýjum belgjum. Það er alveg ljóst að hv. þingmaður les Íslendingasögurnar undir svefninn.

Ræða hv. þm. Guðlaugs Þórs Þórðarsonar var að mörgu leyti snjöll og hann veit miklu meira um heilbrigðismál en ég. Ég hef setið með sex heilbrigðisráðherrum í ríkisstjórnum og þeir hafa verið hver öðrum snjallari. Ég dreg ekki í efa að sú stefna sem hér er lögð fram mundi hafa fallið í kramið hjá hv. þingmanni þegar hann var að leita eftir því að ná fram sem mestri hagræðingu og sparnaði. Hæstv. fjármálaráðherra hefur fært ákaflega skýr rök fyrir því að það sé eftir verulegu fjárhagslegu hagræði að slægjast með því að búa til það sem hv. þingmaður kallar risaráðuneyti. Hv. þingmaður segir að menn hafa bara látið gossa og hafi gassast í þessa sameiningu með engum fyrirvara. Ég er algerlega ósammála því. Fyrirvarinn að stofnun þessa stóra ráðuneytis var meiri og lengri en fyrirvarinn að því þegar ég og hv. þingmaður tókum þátt í því vorið 2007 að skella saman tveimur ráðuneytum með engum fyrirvara og búa til sameiginlegt landbúnaðar- og sjávarútvegsráðuneyti, svo það liggi alveg ljóst fyrir. Hv. þingmaður getur ekki haldið því fram að hér sé verið að ástunda einhvers konar annars konar vinnubrögð.

Hv. þingmaður sagði líka um þetta ráðuneyti að ein af helstu röksemdunum fyrir stofnun þess væri m.a. sú að það væri hægt að sameina heimahjúkrun og heimaþjónustu og hann taldi að það væri þegar búið að því. Það er ekki rétt. Það var búið að því í Reykjavík. En það búa fleiri á Íslandi en í Reykjavík. Það á eftir að gera þetta á landsbyggðinni. Ég gæti svo rakið fleiri draugasögur í björtu eins og hv. þingmaður sagði áðan og geri það kannski í seinni ræðu minni.