138. löggjafarþing — 151. fundur,  6. sept. 2010.

Stjórnarráð Íslands.

658. mál
[16:24]
Horfa

utanríkisráðherra (Össur Skarphéðinsson) (Sf) (andsvar):

Frú forseti. Það kemur úr hörðustu átt þegar Sjálfstæðisflokkurinn talar um pólitísk hrossakaup, en látum það vera. Pólitík hrossakaup? Er það ekki svo að á þessu þingi er yfirgnæfandi meiri hluti fyrir því að stofna innanríkisráðuneyti? Jú, ef menn skoða stefnuyfirlýsingar forustumanna flokkanna. Er ekki yfirgnæfandi meiri hluti fyrir því að stofna eitt atvinnuvegaráðuneyti? Jú, ef maður skoðar stefnuyfirlýsingar forustumanna Sjálfstæðisflokks, Framsóknarflokks og Samfylkingarinnar. Ég þekki ekki Vinstri græna varðandi þetta en mig minnir að … (Gripið fram í: Ekki ...) Varðandi stefnuyfirlýsingar VG þá þekki ég ekki samþykktir landsfunda þeirra en mig minnir að á þarsíðasta fundi þeirra hafi þeir einmitt tekið þetta mál fyrir.

Að því er varðar velferðarráðuneytið hefur hæstv. fjármálaráðherra fært skýr rök fyrir því að þarna sé verulegt fjárhagslegt hagræði. Hv. þingmaður kemur síðan með málefnaleg rök þegar hann segir að það sé hægt að rökstyðja að þetta muni færa vald frá ráðherrum yfir til embættismanna því að ráðuneytin verði svo yfirgripsmikil. Ég spyr á móti: Hvernig er með ráðuneytin í útlöndum sem eru miklu, miklu stærri? Ég held að það sé rétt hjá hv. þingmanni að þetta sé ákveðinn möguleiki en það fer eftir styrk ráðherra. Ráðherrarnir eiga að leggja hinar pólitísku stóru línur. Embættismannanna er síðan að fara eftir því og ef embættismennirnir gera það ekki þá er það ekki vegna þess að þeir séu slæmir embættismenn heldur vegna þess að umræddir ráðherrar eru vondir ráðherrar og eiga ekki heima í ríkisstjórn.

Ég er líka þeirrar skoðunar að það eigi að velta fyrir sér í framtíðinni enn frekari sameiningu ráðuneyta en hér er. Ég hef fært rök fyrir því á þinginu áður að það sé hægt að komast af með sex stór ráðuneyti svo þetta liggi algerlega ljóst fyrir. Ég tel að hér sé verið að fara inn á heillavænlega braut og er hissa á því að stjórnarandstaðan tali svona vegna þess að allir þessir flokkar hafa (Forseti hringir.) með einhverjum hætti fyrir tiltölulega fáum missirum lýst stuðningi við meginbreytingarnar sem þarna liggja fyrir.